Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[13:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég skil mjög vel að þetta frumvarp sé lagt fram. Það er rétt að mjög mörg hús fara núna að komast á friðunartíma og ég held að það sé rétt að það fari fram flokkun og skoðun.

Það sem mig langaði kannski að koma með inn í þessa umræðu og beina til hv. nefndar, sem fær málið til umfjöllunar, er að eiga gott og djúpt samtal við Minjastofnun og aðra þá sérfræðiaðila sem eru að fjalla um þessi mál, því að líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá stendur til að það fari fram heildarendurskoðun á lögum. Ég held að þá sé ágætt að vera búin að eiga samtal þannig að heildarendurskoðunin verði í einhverjum takti við það sem verið er að gera hér.

Mig langar einnig að benda á og vísa því til hv. nefndar að eiga samtal við fagstofnanir um götumynd eða kjarna en ekki bara horfa á þetta í tilviki einstakra húsa. Það geta verið uppi aðstæður þar sem nokkur hús mynda saman einhvers konar heild sem gæti verið verðmæti í að vernda og skoða. Mér fannst þetta áhugavert innlegg hjá hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur hér í andsvörum við ráðherra sem snýr að byggingarstíl í ólíkum sveitum. Það er annað atriði sem skiptir máli inni í þessari heildarmynd þó svo að maður geti verið sammála prinsippinu um að það beri kannski ekki að vernda eða friða öll hús. Síðan er það þannig að stundum er hægt að friða hluti en samt vinna þá þannig að það sé til að mynda tekið tillit til aðgengismála. Mér finnst það stundum vera hlutur sem ekki er nægilega ræddur því að mjög oft er hægt að gera breytingar, til að mynda með tilliti til brunavarna, sem öllum þykja eðlilegar inn í friðuð hús. Einnig er hægt að gera margt til að gera húsin aðgengilegri en vernda samt upphaflegan byggingarstíl og það sem byggingin stendur í raun fyrir.

Mig langar líka að nefna annað atriði sem gildir svolítið almennt en ekki síst þegar kemur að því ef ákvörðun er tekin um að rífa niður hús, þ.e. að loftslagssjónarmiðin séu einnig undir. Það getur líka valdið mikilli losun að rífa niður og byggja aftur upp með steinsteypu og því getur það haft gildi í sjálfu sér að breyta húsnæði en rífa ekki allt niður og byggja upp frá grunni. Þetta er eitthvað sem er kannski ekkert algilt en eitt af því sem mér finnst skipta máli að hafa undir í heildarmyndinni, af því að við þurfum að huga að loftslagssjónarmiðum í öllum málum.

Að lokum langar mig að segja, vegna þess að hér erum við að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar, að almennt séð tel ég að það þurfi að gefa þessum málaflokki mun meiri gaum. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu sem ég get ekki staðist mátið að koma aðeins að í þessari umræðu, sem snýr annars vegar að skráningu á menningarminjum almennt í landinu en hins vegar þeim menningarminjum sem hætta er á að glatist, m.a. vegna náttúrulegra aðstæðna. Þar spilar sjávarrof inn í sem eykst til að mynda með loftslagsbreytingum. Fornleifafræðingar hafa í raun verið að grafa og skrá í kappi við tímann víðs vegar um landið og hafa menningarminjar verið í fréttum sem eru einfaldlega að sverfast og hverfa í sjó og eru þar með glataðar. Því tel ég að við þurfum að leggja aukna áherslu á menningarminjarnar almennt og það þýðir að ráðstafa auknu fjármagni í þennan málaflokk. Ég veit að það er einhver aukning en ég tel að hún þurfi að verða enn meiri vegna þess að menningarminjar eru verðmæti og við getum notað þær sem segla til að draga að alls konar starfsemi. Því getur samfélagið í heild haft ábata af því að settir séu peningar í það að kortleggja, skrá og jafnvel vernda, ekki bara hús heldur ýmiss konar menningarminjar.

Að þessu sögðu þá óska ég nefndinni góðs gengis í því að fjalla um þetta mál. Líkt og ég sagði þá skil ég vel að það sé lagt fram en tel engu að síður mikilvægt að nefndin, ásamt Minjastofnun og fleiri aðilum, kafi dálítið rækilega ofan í þetta. Það eru verðmæti í sögunni sem mér finnst að okkur beri skylda til að vernda og lyfta upp þannig að við getum notið þess sem fyrri kynslóðir hafa lagt til okkar samfélags.