Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[13:12]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu máli og sérstaklega þeirri staðreynd að menningarminjar þjóðarinnar séu settar á dagskrá. Menningarminjar eru ummerki um sögu þjóðarinnar og gera það í raun þjóð að þjóð að þekkja sína sögu og bera virðingu fyrir henni. Það er margt undir. Hér erum við að ræða sérstaklega um húsbyggingar en það er svo margt fleira undir; menningar- og búsetulandslag, sögustaðir, kirkjugripir, minningarmörk — það er ótrúlega margt.

Mig langar að nýta tækifærið og minnast á bátaarfinn okkar. Ég veit að inni í ráðuneyti er samtal um hann en ég held að við þurfum að gera miklu betur. Ótrúlega stór hluti af okkar sögu, menningu og þeirri staðreynd að við höfum náð að lifa hér af fyrr á öldum var íslensk útgerð og þar skipar íslensk skipasaga auðvitað gríðarlega stóran sess. Við getum horft til nágranna okkar, bæði í Noregi og Færeyjum, þar sem við sjáum að virkilega vel hefur verið gert í þessum málum. Þangað eigum við að líta og gera betur.

Staðan er einfaldlega þannig að hluti af okkar mikilvægu sögu liggur nú undir skemmdum og er að grotna niður víða um land. Skip og bátar gætu haft gríðarlega mikið gildi, sögulegt gildi og verið aðdráttarafl í ferðaþjónustunni. Bátar sem hafa verið gerðir upp og stillt upp, t.d. í Húsavík og á fleiri stöðum, eru mikil bæjarprýði og minnisvarðar um baráttu þjóðar fyrir lífi sínu öldum saman. Ég held að þar þurfum við að taka okkur á og gera betur.

Ég ætla að vitna í það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á, að þetta eru mál sem ég held að langflest í íslenskri þjóð séu sammála um. Við viljum standa vörð um arfleifð okkar og menningarminjar en til þess að svo megi verða verður auðvitað að ráðstafa fjármagni. Það er dýrt að byggja upp og dýrt að halda við. Til að svo megi verða og það gert af einhverjum myndarskap þá þarf að forgangsraða peningum í þennan þátt hjá ríkinu.

Ég sit nú sjálf í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd og hlakka til að fá málið þangað inn. Þar munum við virkilega fylgja því eftir og fá til okkar gesti og umsagnir. Þetta er mál og málaflokkur sem ég held að við séum sammála um þvert á flokka, að til þess að við getum einhvern veginn viðhaldið og staðið vörð um sögu þjóðarinnar, sögu af lífsbaráttu síðustu alda, þá verðum við að stíga strax inn og láta verkin tala. Þá vísa ég sérstaklega aftur til skipaflotans. Það verður ekki tekið til baka ef við grípum of seint inn í og látum þessar dýrmætu sögulegu eignir grotna niður. Við getum ekki tekið það til baka þegar það hefur gerst.

Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu og hlakka til að fá málið inn í allsherjar- og menntamálanefnd.