Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á frumvarpi sínu hér. Það hafa ýmsir aðilar komið með umsagnir við þetta ágæta mál og rætt það. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra. Ég þekki vel til ungs manns sem í rauninni hefur ekki haft eina einustu krónu heillengi, er búinn að berjast við þetta kerfi síðan 2014 og aldrei eins og núna í heilt ár þar sem hann er gjörsamlega óvinnufær, sleit einhverja vöðva, búinn að vera í aðgerðum og annað slíkt. Í fyrsta lagi eru sjálfsagt 20 læknar búnir að óska eftir því að hann fari á örorku því að hann óvinnufær með öllu en þá getur hann ekki farið á örorku af því að það skortir einmitt endurhæfingarplanið og hann kemst ekkert á örorku fyrr en að það er búið að endurhæfa en það er nokkuð víst samt sem áður að það er lítið gagn í því. Þrjátíu og sex mánuðir eða þrjú ár eru það sem nú eru í boði. Mig langar líka að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra heldur það í alvörunni að eftir þriggja ára endurhæfingu, ef viðkomandi er svo ofboðslega heppinn að fá að detta inn á kerfið, eins og hæstv. ráðherra bendir á að sé mikilvægt, að grípa inn í og geta tekið utan um einstaklinginn þegar hann þarf á að halda — ég vil einfaldlega benda hæstv. ráðherra á að það er meira heldur en flókið og meira heldur en snúið og kerfið er svo mótsagnakennt að það hálfa er hellingur og þeim sem eru að reyna að berjast við að komast inn á þetta kerfi mætir bara þrefaldur slagbrandur hjá Tryggingastofnun, þannig að einstaklingar eru hér að falla algerlega milli skips og bryggju. Telur hæstv. ráðherra að þetta frumvarp muni í einhverju leiðrétta það? Vegna þess að kerfið eins og það liggur fyrir núna er það flókið að í rauninni veit varla fólkið sjálft sem á að vinna við það hvort það er að koma eða fara, hvað þá einstaklingarnir sem þurfa að leita sér aðstoðar í þessu ömurlega kerfi.