Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það þannig að innan Sjálfstæðisflokksins hefur farið fram mjög mikil vinna á undanförnum árum við að skoða breytingar, nauðsynlegar breytingar þegar kemur að almannatryggingakerfinu, hvort heldur er er varðar eldri borgara eða öryrkja. Eitt af því sem við höfum verið að leggja til er einmitt að það sé sótt í það að tryggja það að fólk sem af einhverjum ástæðum hefur orðið fyrir skertri starfsorku, er öryrkjar, geti fengið, án þess að taka neina fjárhagslega áhættu, tækifæri til þess að stíga fyrstu skrefin inn á vinnumarkaðinn og ef það gengur ekki í tvö, þrjú ár að þá án þess að verða fyrir nokkrum fjárhagslegum skaða geti það snúið aftur inn í tryggingakerfi almannatrygginga. Það er eitt sem ég held að við ættum að skoða.

Ég hef líka verið alveg skýr, allt frá því að ég kynntist þessu kerfi og náði loksins að skilja megingrunninn í þessu flókna kerfi þegar ég sat í nefnd í þrjú ár undir forystu Péturs heitins Blöndals, ég hef áttað mig á því að kerfið sem við erum með er meingallað og þar erum við hv. þm. Inga Sæland alveg innilega sammála. Það sem særir mest er að kerfið er þannig að í raun er fólki refsað þegar það gerir tilraun til þess og á möguleika á að nýta tækifæri til að bæta eigin hag. Við megum aldrei hafa félagsleg úrræði eða aðstoð við fólk með þeim hætti að því sé beinlínis (Forseti hringir.) refsað þegar það reynir að bæta hag sinn. Það er ekki það sem við eigum að gera heldur hið þveröfuga.