Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:16]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður sagði í lok andsvar síns er bara hárrétt. Ég ætla hins vegar aðeins að taka fram að það var ekki bara starfsgetumatið sem sat í Öryrkjabandalaginu á sínum tíma, a.m.k. ekki þegar ég var að vinna að tillögum á þessum árum, nefndin starfaði fram til 2016 ef minnið svíkur mig ekki, sem getur oft gerst á þessum aldri. En það voru líka önnur atriði sem komu þar fram. Það voru m.a. deildar meiningar um hvort og með hvaða hætti ætti að innleiða hér hlutabótakerfi o.s.frv., sem ég tel að sé réttlætanlegt og réttlætismál en það er mjög kostnaðarsamt ef annað kemur ekki til.

Ég er líka sammála hv. þingmanni, og þar hef ég aðeins breytt um skoðun, að starfsgetumatið eins og við vorum að tala um á sínum tíma var kannski ekki — ég held að hugmyndafræðin hafi verið rétt en hins vegar hefur orðið starfsgetumat, og ég skil það, haft óheppileg áhrif á þá sem við erum að reyna að byggja upp og við eigum auðvitað að taka tillit til þess. Ég held hins vegar að hugmyndafræðin á bak við starfsgetumatið hafi verið rétt, þ.e. að við reynum að átta okkur á því hvort fólk hefur möguleika á því og vilja til að taka þátt í vinnumarkaði, það er það sem við erum að reyna að gera, virkja fólk til virkrar þátttöku á vinnumarkaðnum, það er markmið okkar en við viljum hins vegar gera það með þeim hætti að það hafi fjárhagslegan hvata til þess. Þar erum við hv. þingmaður innilega sammála og við skulum berjast áfram í því. En ég ætla bara að taka fram: (Forseti hringir.) Þetta er fyrsta skrefið sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er að taka á komandi árum (Forseti hringir.) og ég þakka fyrir það og það skref skiptir miklu máli.