Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að því að það á að ræða um almannatryggingar, um endurhæfingarlífeyri eða örorku, þegar kemur að því að segja að við skulum reyna að tryggja framfærslu sem fyrst, reyna að taka utan um fólkið okkar sem fyrst, þá get ég ekki annað en komið hingað og sagt: Dettur nokkrum í hug að einstaklingur sem eingöngu er á framfærslu almannatrygginga lifi þokkalegu lífi? Að minnsta kosti ekki efnislega, a.m.k. eru engin veraldleg gæði í kringum hann, það liggur í hlutarins eðli. Nú hefur Flokkur fólksins mælt fyrir breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið þar sem við óskum eftir því að ríkisvaldið, fjárveitingavaldið, við í þessum sal, taki utan um hóp þessa fólks sem á hvað bágast í samfélaginu, þá sem eingöngu eru á framfærslu almannatrygginga og hafa ekkert annað að reiða sig á. Þetta eru ekki einungis öryrkjar sem ég er að tala um. Ég er líka að tala um 6.000 eldri borgara.

Það hefur verið talað um ýmislegt, m.a. að nýgengi örorku hafi dregist saman. Af hverju? Ég segi að það sé ekki bara út af því að það séu fleiri komnir í starfsendurhæfingu, bara alls ekki. Það er vegna þess að það eru komnir fjórtán slagbrandar fyrir Tryggingastofnun og það er í rauninni nánast orðinn óvinnandi vegur fyrir lækni, alveg sama hvers lags vottorð það er, þótt það vanti heilu og hálfu útlimina á einstaklinginn, að koma honum inn í örorkukerfið. Hér er verið að tala um að það hafi verið í rauninni ofreiknaður 4,1 milljarður kr. á fjárlögum síðasta árs sem var talið að myndi fara í nýgengi örorku. En nei, það gerði það nefnilega ekki. Sem er stórkostlega frábært, það mun ekki kosta meira að neinu leyti að framlengja starfsendurhæfingartímabilið upp í fimm ár eins og hæstv. ráðherra er að mæla fyrir hér í frumvarpi sínu, bara alls ekki. Ef einstaklingur sem er í starfsendurhæfingu þessi tvö ár í viðbót, sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að lengja tímabilið, en hann fær ekki þá endurhæfingu að vera orðinn bær til að komast út á vinnumarkaðinn, þá mun hann að eðli málsins samkvæmt fara inn á örorku, þannig að það er enginn aukakostnaður. Það er enginn sparnaður. Þetta er í rauninni á núlli. Munurinn er sá að annars vegar heldur einstaklingur áfram lengur í starfsendurhæfingu, eins og það sé ekki orðið ljóst eftir þrjú ár að hann verður í rauninni ekki endurhæfður meira, eða hann er einfaldlega öryrki og á að fara á örorkuframfærslu. En þessi 4,1 milljarður, virðulegi forseti, er tekinn og það á að greiða af honum 2,9 milljarða vegna dómsmáls sem ríkið tapaði vegna búsetuskerðinga þess fólks sem að hluta til hefur búið erlendis. Þetta er fólk sem hefur ákveðið að kjósa með fótunum og flýja af landi brott af því það hefur ekki náð endum saman, það getur ekki lifað hérna, það bara getur það ekki. Það er búið að sjá tækifæri, það er ódýrara að leigja, það er ódýrara að borða, það er ódýrara að lifa fyrir utan svo betra veður, nema náttúrlega núna, ég veit ekki hvar við erum að lenda. Það er allt að byrja að bruma á ný á Íslandi í dag en það er önnur saga.

Það sem við stöndum frammi fyrir er í rauninni að stíga út fyrir rammann og brjóta upp þetta kerfi, algerlega eins og við Guðmundur Ingi Kristinsson höfum svo gjarnan sagt: Það þarf að núllstilla kerfið. En það að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra skuli ætla að taka þessa 2,9 milljarða til þess að greiða upp dómsmálið sem ríkið tapaði, búsetuskerðingarnar sem á að greiða út, í stað þess að taka úr svokölluðum varasjóði eins og venjan er, er með hreinum ólíkindum. Við í Flokki fólksins erum að óska eftir því að taka 1,65 milljarð kr. í eingreiðslu núna um jólin. Auðvitað er það ótækt að við skulum alltaf þurfa að vera að kalla eftir því á hverju ári að biðja um hjálp fyrir fólkið sem í rauninni kvíðir jólunum. Einhver skrifaði og spurði: Er þetta ekki jafn slæmt hjá okkur alla mánuði ársins? Jú, það er það. Það er jafn erfitt fyrir öryrkja á berstrípuðum bótum almannatrygginga að sjá sér farborða um jólin eins og alla mánuði ársins. Það er bara einhvern veginn öðruvísi umgjörð þegar kemur að jólunum. Það er í okkar menningu. Okkur langar til að gera betur við okkur, borða betri mat, viljum gjarnan geta verið með fjölskyldum og vinum og okkur langar til að gleðja fjölskyldu og vini, hvað þá börnin okkar, og gefa þeim jólagjafir. En því miður þá er enginn afgangur. Ég heyrði það að þær 50.000 kr. sem voru greiddar út fyrir síðustu jól, bara rétt fyrir jólin, hefðu gjarnan mátt koma aðeins fyrr ef maður hefði mátt ráða því, skiptu sköpum fyrir marga og það var gríðarlegt þakklæti. Þrátt fyrir að einhverjir tali hærra um þessi mál en aðrir þá breytir það ekki þeirri staðreynd að það þarf samstöðu okkar allra hér, meiri hluta þingsins, til að hlutirnir gangi eftir. Ef stjórnarflokkarnir hefðu ekki samþykkt þetta, ef ekki hefði verið tekið utan um það af meiri hluta og í rauninni öllu þinginu, þá hefði þessi greiðsla ekki orðið að veruleika. Ég er ekki að vanvirða þau góðu verk sem þó eru unnin hér og ég óska eftir því að þeim sé haldið áfram, þeim sé virkilega haldið áfram.

Talandi um mannauð, talandi um mannauð í þúsundum einstaklinga sem eru fastir í rammgerðri fátæktargildru almannatryggingakerfisins, þá er sárara en tárum taki að við skulum vera gjörsamlega eins og hippar í handbremsu, það sé gjörsamlega búið að negla okkur hér niður með tonnataki og við getum ekki stigið út fyrir rammann. Við verðum að gjörbreyta þessu. Bara það sem ég var að tala um áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason, þegar við tölum um að virkja mannauðinn okkar, af hverju í ósköpunum gefum við ekki fólki kost á því að fara út að vinna ef það vill? Af hverju gefum við ekki fólki raunverulegan kost á því að bjarga sér og virkja sig og efla sig? Það er vægast sagt vondur staður að vera á, virðulegi forseti, það er virkilega vondur staður að vera á að festast inni í svartnættinu, festast inni og treysta sér ekki til að fara út. Það dregur máttinn úr einstaklingnum eftir því sem hann er lengur í þessu kerfi, eftir því sem hann rekst á fleiri veggi, eftir því sem hann bíður lengur, hvort sem það er á biðlista eftir aðgerð eða virkni til að koma sér út í samfélagið á þann hátt eða eftir því að komast í endurhæfinguna í gegnum Tryggingastofnun og læknana sem skrifa vottorðin, eða að komast inn í kerfið yfir höfuð. Og talandi um snemmtæka íhlutun þá er virkilega sorglegt að sjá að fólk er að bíða hér svo árum skipti og berjast við kerfið eins og einstaklingurinn sé einhver óvinur sem á bara að refsa: Nei, góði minn, nenni ekki að tala við þig núna. Til hvers þurfum við að vera að fara og kæra úrskurði til kærunefnda? Allt þetta ofboðslega þunga kerfi sem skilur sig ekki einu sinni sjálft.

Ég hef trú á því að eftir því sem við skoðum þetta betur og gerum það sameiginlega og í sameiningu þá munum við sjá kostina þegar kemur að því að gefa t.d. öryrkjum kost á því að fara út að vinna í einhvern ákveðinn tíma til að athuga hvort aðlögunartíminn virkar, hvetja þau, ekki láta þau vera hrædd við að spreyta sig, ekki láta þau vera hrædd við að þeim verði refsað ef þau gefast upp og bakka til baka. Það reyndar gerðist hjá 68% allra þeirra sem ég var að benda á hér áðan. Samkvæmt þeim gögnum sem við fengum frá Svíþjóð voru 68% þeirra sem reyndu fyrir sér sem gáfust upp og gátu þetta ekki. Hugurinn var öflugri en getan og þótt viljinn væri til staðar þá gátu þau ekki haldið sér á vinnumarkaðnum. Það er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið þeirra þrá og þeirra draumur og ósk og þau jafnvel haft miklu sterkari væntingar til sín sjálfs, eins og ég er að benda á, heldur en það sem raunverulega varð síðan ofan á. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það tókst hjá 32% allra öryrkja í Svíþjóð sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði og nýttu sér þau úrræði og þær sérreglur sem sænsk stjórnvöld gáfu þeim tækifæri til þess að nýta. Sænsk stjórnvöld voru einmitt að tala um alla þessa nýgengi örorku og hvað það væri mikill kostnaður af nákvæmlega þessu kerfi sínu og hvort það væri hægt að gera eitthvað til þess að draga úr nýgengi og til að efla einstaklinginn, draga fram mannauðinn og veita fólki sjálfsvirðingu og tækifæri. 32% fóru ekki inn á kerfið aftur, fóru ekki inn á almannatryggingakerfið aftur. Hvað er þetta annað, virðulegi forseti, heldur en bara stóri vinningurinn fyrir þessi 32% sem náttúrlega fyllast af vellíðan og sjálfstrausti, gátu bjargað sér sjálf? Við vitum ekki einu sinni um öll keðjuverkandi jákvæðu áhrifin sem skapast í kringum það þegar þú ert kominn út á vinnumarkað, farinn að vera í samskiptum við annað fólk, farinn að finna félagslega fyrir því að taka þátt í tilverunni, þú borgar þína skatta og skyldur, þú ert með. Ég hef haft það á tilfinningunni að mjög mikið af fólkinu okkar sem á hvað bágast sé einfaldlega skilið út undan. Við getum gert svo miklu betur og svo miklu meira.

Ég hef alltaf sagt að ef ekki er farið aukalega í vasann á skattgreiðendunum, ef það kostar okkur ekki aukakrónur heldur þvert á móti geti það orðið gífurlegur ávinningur fyrir samfélagið í heild sinni að stíga út fyrir boxið og þá eigum við ekkert að hika við það, bara aldrei. Og síðan eigum við absalútt að taka þessa fjármuni sem ekki fóru í nýgengi örorku og færa þá til þeirra sem bágast standa.

Flokkur fólksins hefur líka mælt fyrir frumvörpum um að hætta að skattleggja fátækt. Hættið að skattleggja fátækt. Það er með hreinum ólíkindum gagnvart því fólki sem stendur í röðum fyrir framan hjálparstofnanir núna fyrir jólin — það hafa aldrei verið fleiri sem standa í röð og óska eftir aðstoð og mat — að við skulum vera þekkt fyrir það, löggjafarvaldið, fjárveitingavaldið, á okkar vakt, að láta þetta viðgangast. Að vísu ef ég væri að stýra þessari skútu þá væri þetta ekki svona. Það segir sig alveg sjálft. Það eru hreinar línur að það væri ekki svona. En það er svona og ég tel að við getum gert svo miklu betur.

Hvort þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra leggur fram núna um möguleika á að framlengja starfsendurhæfingu um tvö ár mun gera eitthvað og sé skref í rétta átt — nei, virðulegi forseti, ég kem bara engan veginn auga á það. Eftir þrjú ár í starfsendurhæfingu er orðið fullreynt hvort viðkomandi eigi ekki bara hreinlega að labba yfir þröskuldinn og fara á örorku af því að hann verður ekki starfsendurhæfður meira. Hvað VIRK – starfsendurhæfingarsjóð varðar þá er kominn tími til að skera úr um og taka af allan vafa um það að VIRK á ekki að mismuna fólki. Það eiga allir að eiga jafnan aðgang að starfsendurhæfingu hjá VIRK, hvort sem þú ert alkóhólisti, fíkill eða hvað eina annað. Ég var nú að heyra það að um daginn hefðu þeir gefið þá yfirlýsingu að þeir ætluðu að hætta að mismuna þessum þjóðfélagshópum og taka á móti þeim í endurhæfingu. Það vill nefnilega svo einkennilega til að fíklarnir okkar, alkóhólistarnir okkar, eru líka fólk og í þeim liggur sami mannauður og í öllum öðrum. Oft eru þetta einstaklingar sem hafa gengið í gegnum gríðarleg áföll, sorg og vanlíðan og annað sem hefur orðið þess valdandi að þeir hafa fest einhvers staðar inni og það er þeirra leið út að leita á náðir Bakkusar. Í okkar tilviki þá getum við tekið utan um þetta fólk, starfsendurhæft það eins og hvern annan og gefið því tækifæri á því að sjá gleðina og bjartsýnina, verandi kannski einstaklingur að koma úr langtímameðferð og vera fullur af vilja til þess að fá að taka þátt í samfélaginu. Þetta verður að vera heildstætt. Við þurfum að taka utan um allt fólkið okkar og númer eitt, tvö og þrjú: Ekki láta það bíða eftir hjálp.