Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

lögfræðiálit lífeyrissjóðanna um ÍL-sjóð.

[11:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Hvernig réttlætir ráðherra að halda sínum kúrs þrátt fyrir að lögfræðiálit segi að hann fari á svig við lög? Að þessu spurði hv. þm. Bjarni Benediktsson í þessum sal árið 2010 þegar lögfræðiálit utan úr bæ sýndu að þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri mögulega rangstæður gagnvart lögum. Gervallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins raðaðist hér í pontu og fannst þetta mikil ósvinna, kallaði eftir fundum í forsætisnefnd, kallaði eftir fundum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, kallaði eftir því að gefin yrðu skýr svör og á endanum yrði auðvitað forsætisráðherra sem fer fyrir ríkisstjórninni að standa fyrir svörum ef ráðherra ætlaði að halda sínum kúrs og brjóta lög. Hvað hefur breyst, herra forseti?