Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa sagt það að þetta sé mikilvæg umræða sem fer hér fram í dag. Ísland á að sjálfsögðu að vera forysturíki þegar kemur að loftslagsmálum og þó að við séum kannski ekki stór í samhengi milljóna- eða milljarðaþjóða þá skiptir það máli að vera með stefnu og að framfylgja henni og vera þannig trúverðug rödd þegar við erum að tala fyrir því að aðrar þjóðir eigi einnig að uppfylla markmið. Það er ógnvænlegt hvernig heimsbyggðinni er að því er virðist ekki að takast að halda hlýnun innan við 1,5°C en það er engu að síður markmið Íslands að þar viljum við vera og við eigum að halda því áfram og þangað eigum við að stefna og frá þessu má ekki hvika. Við þurfum að draga úr losun og við þurfum að halda áfram að uppfæra okkar aðgerðaáætlanir. Ég er sannarlega sammála hæstv. ráðherra í því að á sama tíma þurfum við auðvitað að halda áfram eins og við erum að gera, að fylgja því eftir að það sem við höfum ákveðið að gera raungerist og á þeirri leið erum við og þar eigum við að halda áfram.

Að lokum: Alþjóðlegur hamfarasjóður er mikilvægur og að sjálfsögðu á Ísland að taka þátt í honum og mér finnst að við eigum að leggja á hann áherslu og það skiptir máli að búa til umgjörð um hann sem hraðast því að þetta þarf að komast í gagnið og það helst í gær.