Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef aðeins verið að tala um þau skelfilegu afglöp sem samþykkt 6. gr. þessa skelfilega frumvarps hefði í för með sér. Þar sem ég er búin að fara yfir umsögn Rauða krossins um þetta hræðilega ákvæði þá ætla ég að finna hér til bréf frá Rauða krossinum vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd sem ekki er hægt að flytja úr landi. Þetta er akkúrat fólkið sem á eftir að verða fyrir þessari þjónustusviptingu. Þetta er akkúrat fólkið sem á að henda út á götu og svipta allri þjónustu og neita um heilbrigðisþjónustu. Ég vísa hér í bréf frá 3. nóvember sl. sem Rauði krossinn sendi dómsmálaráðuneytinu en þar stendur, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn á Íslandi stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í samvinnu við stjórnvöld og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Að gefnu tilefni hefur félagið skoðað sérstaklega aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum.

Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dagsettar 27. september sl., voru alls 64 einstaklingar sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á Íslandi en ekki er unnt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Til að kanna aðstæður framangreindra umsækjenda hefur Rauði krossinn tekið viðtöl við einstaklinga úr þeim hópi, alls fimmtán, og á þann hátt fengið tækifæri til að átta sig betur á aðstæðum þeirra og möguleikum á Íslandi.

Við rannsókn Rauða krossins kom í ljós að umsækjendur í framangreindri stöðu eigi í verulegum erfiðleikum með að fá útgefið bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi á meðan þeir dvelja hér á landi en slíka heimild er að finna í 1. mgr. 77. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Til þess þurfi þeir að leggja fram frumrit af vegabréfi sínu en mikill meiri hluti þeirra 64 einstaklinga sem ekki er hægt að flytja úr landi er án vegabréfs og þurfa þeir því að ferðast til annarra landa til að verða sér úti um slíkt.

Í viðtölum Rauða krossins við áðurgreinda einstaklinga kom í ljós að mörg barna þeirra sem fæðst hafa utan heimalands síns eða hér á landi glími við ríkisfangsleysi, enda séu þau ekki skráð í kerfi heimalands síns. Samkvæmt skýrslu European Council of Refugees and Exiles“ — eða Evrópuráð flóttafólks og útlaga, ég held að útlagi sé nú ekki endilega rétta þýðingin fyrir þetta, virðulegur forseti — „frá árinu 2017 öðlast fjöldi flóttabarna sjálfkrafa ríkisfang foreldra sinna við fæðingu en það ríkisfang verður oft einungis til í orði, þar sem foreldrum er meinað að skrá barn sitt hjá yfirvöldum í heimalandinu. Afleiðing þess er sú að þúsundir flóttabarna falla á milli þilja í kerfinu og eru dæmd til ríkisfangsleysis en rétturinn til nafns og ríkisfangs er varðveittur í 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í meðfylgjandi skýrslu Rauða krossins um aðstæður umsækjenda sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum er að finna ítarlega greiningu á aðstæðum þessa hóps hér á landi. Þá er þar einnig að finna nokkrar tillögur til úrbóta sem Rauði krossinn hvetur dómsmálaráðherra til að skoða við gerð frumvarps síns um breytingar á útlendingalögum …“

Þetta bréf og skýrslan sem því fylgir, sem ég mun koma nánar að hér á eftir, er mjög mikilvægt gagn til höfuðs þessari 6. gr. Aðstæður þessara 64 manneskja sem hér dvelja og ekki er hægt að henda úr landi og ekki hafa nokkurs konar viðurkennda stöðu hér á landi eru hreint út sagt skelfilegar. Það er með ólíkindum að það eigi að fjölga fólki í þessari stöðu. Í staðinn fyrir að koma til móts við þennan hóp og reyna að gera eitthvað til þess að fækka fólki í þessari stöðu ætlum við að fjölga því. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þessa umræðu að við áttum okkur á því hvaða ákvörðun er raunverulega verið að taka með því að hafa 6. gr. þessa frumvarps inni. Þar af leiðandi tel ég að það sé einboðið að fjalla nánar um þessa skýrslu sem Rauði krossinn skilaði inn um aðstæður einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum og mun ég fjalla um það í næstu ræðu.

Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.