Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fyrst: Við beitum fundarstjórn vegna þess að ríkisstjórnin hefur valið sér þá leið að eiga ekki samtal við Alþingi Íslendinga. Við beitum fundarstjórn því að það er okkar eina leið til að fá fram svör. Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær að þegar hann hefði lagt fram minnisblað um sölu vélarinnar í ríkisstjórn. Þar hefðu engar athugasemdir verið gerðar. Ég hef ekki heyrt aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar tjá sig um hvernig þetta kom t.d. við hæstv. utanríkisráðherra á þeim tímum sem við lifum nú. Lagði sá ráðherra orð í belg? Var einhugur um þetta? Var hæstv. ráðherra spurður svara um það hvert planið væri eftir sölu, hvað tæki við? Verður hér biðstaða í einhverjar vikur, mánuði, ár áður en ríkisstjórnin ætlar að fara að huga að almannaöryggi fólksins í landinu vegna veðra, náttúruhamfara eða stríðsreksturs? Eða er það seinni tíma vandamál?