Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessu frumkvæði þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hafði ætlað að spyrja sömu spurningar og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og legg kannski aðeins út af því sem hér hefur verið rætt. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Orri Páll Jóhannsson segir, að þingflokkar leggja mál fram til að varpa ljósi á áherslur sínar sérstaklega en mig grunar nú að þessar áherslur hafi kannski ekki þann hljómgrunn innan stjórnarflokkanna sem við sum önnur myndum vilja sjá. Ég er pínu rugluð yfir þessu. Það er verið að vinna að stefnumótun í málaflokknum í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og eitthvað kemur út úr henni og þingmenn Vinstri grænna koma hér með þessa tillögu sem er allra góðra gjalda verð en hefur það aldrei verið rætt milli stjórnarflokkanna þriggja að leggja alvöruvinnu í auðlindastefnu sem gildir þá um allar náttúrulegar auðlindir hér á landi?