Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[12:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við munum þá fara í það í nefndinni að skoða hvort tveggja, hvaða aðrar lífkennaupplýsingar um er að ræða, því að það er auðvitað líka verið að veita heimild fyrir geymslu slíkra upplýsinga. Ég held að við hljótum að gera þá kröfu að löggjafinn viti aðeins um hvað rætt er þegar um er að ræða mögulega viðkvæmar persónuupplýsingar, að við séum ekki að gefa alveg opinn tékka til ráðherra hverju sinni um útgáfu reglugerðar um hvaða lífkennaupplýsingar það séu sem afla megi.

Aðeins varðandi hitt líka. Af því að nú lifum við á slíkri tækniöld að það er nánast hvað sem er sem hægt er að rúma í einu svona korti þá held ég að það væri hægðarleikur að samræma þessi kort þannig að þau veiti viðlíka vernd, þ.e. kortin sem gefin er út af útlendingayfirvöldum og þessi nafnskírteini, þannig að þegar þú framvísar þeim þá telst það fullnægjandi sönnun á tilvist þinni og tilveru. Það er auðvelt að koma því fyrir þannig að þú hafir ekki alveg sama aðgang og allir ríkisborgarar, getir ekki kosið og þess háttar eða ferðast um öll heimsins lönd. Þú þarft til þess vegabréf. Ég held að við hljótum að geta einhvern veginn tryggt að allir sitji við sama borð varðandi framvísun skilríkja. Við vitum jú að hluti þeirra borgara sem hér eru af erlendum uppruna, þótt lítill hluti sé, agnarsmár hluti, á t.d. ekki ferðaskilríki og getur þess vegna ekki notað einhver önnur skilríki til að sanna deili á sér.