131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel að við ræðum hér eitt af þeim málum sem sennilega næst góð samstaða um í þinginu og að allir stjórnmálaflokkar telji það sem stefnt er að vera gott mál eins og stundum er sagt um málefni sem hér eru rædd. Að minnsta kosti á það við um þann sem hér stendur að ég tel að sú stefna sem hér er sett fram, að auka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs, sé af hinu góða og sé í raun og veru bráðnauðsynleg miðað við hvernig mál hafa þróast í landinu á undanförnum missirum. Það er auðvitað svo, því miður, að lánskjör og lánsfjárhæðir eru misjafnar hér á landi eftir því hvar verið er að lána út á fasteignir þó að það sé sjálfsagt rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ekki sé hægt að draga þessa línu eingöngu utan um höfuðborgarsvæðið sem sérstakt lánasvæði sem bankarnir vilja eingöngu lána á, heldur ráðist það auðvitað dálítið af mati viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana á því hvaða verðmæti þeir telja í ákveðnum eignum. Ég tel hins vegar að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé að efla sem mest jafnræði með fólki hér á landi varðandi lánamöguleika til að eignast eigið húsnæði. Íslendingar hafa í ríkum mæli viljað eiga sitt húsnæði sjálfir og mjög margir stefna að því sem sérstöku takmarki á ævinni að eignast sitt eigið húsnæði. Í sjálfu sér tel ég það af hinu góða þó að vissulega eigi það ekki beinlínis að vera skylda hvers og eins að kaupa sér húsnæði ef hann vill heldur vera á leigumarkaði.

Mér sýnist alveg ljóst að frumvarp það sem við erum með í höndunum og erum að ræða sé til þess fallið að efla möguleika fólks til að eignast húsnæði. Ég tek undir það sem sagt er í greinargerð með frumvarpinu að landsmenn sitja ekki allir við sama borð að því er varðar lánskjör og lánafyrirgreiðslu, annars vegar víða á landsbyggðinni og hins vegar á þeim markaðssvæðum þar sem íbúðaverð hefur hækkað markvisst á undanförnum árum sem er að stærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu þótt það sé ekki einhlítt.

Bankarnir komu inn á þennan markað fyrir aðeins örfáum missirum með miklum látum í kjölfar þess að þeir höfðu ekki náð því fram að ríkinu væri í raun og veru ekki heimilt að reka Íbúðalánasjóð og kappsmál fjárfestingarbankanna og viðskiptabankanna var að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þegar hins vegar sú staðreynd lá fyrir og það var staðfest að starfsemi Íbúðalánasjóðs stæðist allar reglur, niðurstaða í því máli kom fram í ákvörðun sem lá fyrir frá ESA í ágúst sl., fóru bankarnir beint inn í virka samkeppni á íbúðalánamarkaði og út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja. Maður spyr sig hins vegar að því þegar svo er komið að fjárfestingarstofnanir setja á fulla ferð inn á húsnæðismarkaðinn og sækjast eftir 1. veðrétti eigna hvort viðskiptabankarnir telji að það séu e.t.v. bestu tryggingarnar fyrir lánsfé hér á landi að festa lánin við íbúðarhúsnæði.

Ég minni á það, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafa lánastofnanir hér á landi fjárfest eða stutt við fjárfestingar í því sem ég kalla að taka veð í góðu sumri, þ.e. í syndandi fiski í sjónum, sem enginn veit frá ári til árs hvort verður nákvæmlega það sama árið eftir eða árið þar á eftir og ég hef nú stundum varað menn við því að árferðið á Íslandsmiðum væri ekki stabílt fyrirkomulag. Ég held að menn séu að upplifa þetta og sum veðin sem tekin voru t.d. í innfjarðarrækju fyrir ekki svo löngu síðan eru einskis virði í dag, svo ég minni bara á það. Framsýni bankastofnana í því að taka tryggingar hefur því ekki alltaf verið mikil hér á landi.

Samt sem áður hafa íbúðarhúsin okkar löngum verið talin nokkuð góð veð. Það er auðvitað líka vegna þess að það er séð til þess að við tryggjum þessar eignir okkar og þar af leiðandi er áhættan minni en ella væri. Almennt hefur íbúðaverð farið hækkandi hér á landi þó að það eigi ekki við alls staðar og sum landsvæði hafa orðið að una því að íbúðaverð hafi breyst verulega til lækkunar en það hefur yfirleitt gerst samfara því að önnur breyting hefur orðið í viðkomandi byggðarlögum eins og tekjusamdráttur eða breytingar á atvinnumöguleikum. Þar er auðvitað búið við ákaflega óstöðugt umhverfi sem við þekkjum öll sem höfum tekið hér einstaka sinnum umræðu um byggðamál, fiskveiðistjórnarmál og fleiri mál sem ég ætla ekki að blanda mikið meira inn í þessa umræðu.

Ég tel hins vegar að það mál sem við erum með í höndunum og erum að ræða sé af hinu góða. Ég held að það sé einnig góð þróun að fólki sé boðið upp á endurfjármögnun sem bankarnir tóku upp með þeim með hætti sem þeir gerðu undanfarin missiri. Það er hins vegar ekkert launungarmál að þegar fólk endurfjármagnar lán sín er það venjulegast gert til að lækka greiðslubyrði og fólk hefur þá meira ráðstöfunarfé handa á milli. Það er auðvitað æskilegt en það væri líka æskilegt að eitthvað af því aukna ráðstöfunarfé sem fólk fær fari ekki allt í eyðslu. Það væri æskilegt að fólk notaði auknar ráðstöfunartekjur sínar að hluta til sparnaðar svo framarlega sem það ætti þess kost og hefði ráð á því.

Allt spilar þetta saman við stefnumálin almennt. Við ræddum áðan um skattamálin og ég hef oft nefnt að ég tel útþenslu ríkisstjórnarinnar í skattamálum að því er varðar að lækka sérstaklega skatta á hátekjur bjóða upp á aðferð sem ekki gagnist okkur til þess að viðhalda stöðugleika og sé þvert móti frekar til að auka óstöðugleika og reyndar einnig til þess gert að auka kaupmátt þeirra sem hafa alveg þokkalegan og góðan kaupmátt fyrir og er engin ástæða til að fara þannig í málin. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast mjög þá stefnu ríkisstjórnarinnar þó að menn afsaki þetta ævinlega með því að sú ákvörðun hafi verið tekin fyrir löngu að lækka skatta á hátekjur og síðan að afnema þær. Ég tek auðvitað eftir því að verkalýðshreyfingin er sammála mér í því og þeir telja að það sé ekki rétt stefnumótun hjá ríkisstjórninni að fara í skattalækkanir með þeim hætti sem hún boðar.

Ég tel rétt eins og staðan er í þjóðfélaginu núna varðandi lánamarkaðinn að við reynum að flýta þessu máli ef hægt er en ég legg jafnframt áherslu á að menn vandi vel málsmeðferðina og fari gaumgæfilega yfir málið í nefndinni. Mér sýnist frv. hafa verið ágætlega unnið og að hægt sé að hæla hæstv. ráðherra fyrir að það virðist hafa verið skoðað vel miðað við þá greinargerð sem því fylgir. Ég lýsi einfaldlega yfir stuðningi míns flokks við málið og mun ræða það betur þegar það kemur úr nefnd eftir að hafa verið skoðað þar og tel að það eigi að fá eins fljóta en jafnframt vandaða meðferð og kostur er.