131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:31]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til að byrja á því að óska hv. þm. Pétri Blöndal og félögum hans í ríkisstjórnarsamstarfinu til hamingju með það að hafa lagt hérna til skattahækkanir á einum eftirmiðdegi upp á tæplega 700 millj. kr. Hefur margur orðið af minna feginn þannig að ég óska honum til hamingju með það. Það verður gaman að heyra ræðu hans á eftir þegar hann fer yfir málið sem formaður nefndarinnar sem um það fjallar og hvort komnir séu brestir í fögnuðinn sem hann lýsti fyrir nokkrum dögum.

Ég vildi taka aðeins upp þráðinn. Fyrir utan þá skattahækkun sem hérna á sér stað hef ég töluverðar efasemdir annars um efni frumvarpsins. Hér hafa menn talað um árangur eða árangursleysi hinnar svokölluðu norrænu áfengispólitíkur sem ég tel að sé fyrir löngu síðan komin í algert þrot. Ég vildi til að byrja með spyrja hæstv. ráðherra hvort menn hefðu metið áhrif þessarar gjaldahækkunar á sterk vín á áhrif á sölu á smygli og landabruggi. Það hefur verið skotið á þær tölur að neysla á landabruggi og smygluðum spíra geti numið allt að 20% af heildarneyslu sterkra vína á Íslandi. Það eru svipaðar tölur og eru annars staðar á Norðurlöndunum og er engin ástæða til að gera ráð fyrir því fyrir þá sem til þekkja að neysla á smygli og bruggi sé nokkru minni hér en annars staðar á Norðurlöndunum, ef hún er ekki meiri. Það væri gaman að heyra viðhorf manna til þeirra áfengispólitísku afleiðinga sem svo veruleg hækkun á áfengisgjaldinu hefur í för með sér, 7% hækkun á sterku víni. Ég tel að áhrifin geti verið töluverð. Það er gríðarlegur undirheimabisness í gangi með bæði landa og smyglaðan spíra og ég get ekki ímyndað mér annað en að þessi gjaldahækkun á sterkt vín sé eins og vítamínsprauta inn á þann markað og hljóta menn að fagna þar, í þeim undirheimum eins og hv. þm. Pétur Blöndal fagnaði skattalækkuninni í síðustu viku sem er farið að sjá verulega á núna eftir þessa 700 millj. kr. skattahækkun í dag.

Svo vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort fyrirætlanir væru uppi um það að einhverjar þessara 340 millj. sem hér á að innheimta séu hugsaðar til forvarnastarfs og/eða reksturs SÁÁ. Síðustu daga og vikur hafa verið fréttir um það að starfsemi SÁÁ og fleiri slíkra meðferðarstofnana sé í uppnámi og þess vegna væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra hugsi sér að verja einhverjum þessara 340 millj. kr. skattahækkana til SÁÁ eða til að mæta þeim vanda sem er þar eða almennt til forvarnamála. Burt séð frá því hversu mikla trú menn hafa á gildi forvarna og slíkrar starfsemi væri gaman að heyra viðhorf ráðherrans til þessara mála.

Þá hafa menn komið inn á það að Samtök ferðaþjónustunnar kvarta sáran yfir háum gjöldum á áfengi og þeirri áfengispólitík sem stjórnvöld reka hér. Þess vegna hlýtur hæstv. ráðherra að taka af skarið með það hvort stjórnvöld hyggist lækka á móti áfengisskattinn á létt vín og bjór sem aftur leiðir sjónir að því hvort þessi gjaldahækkun á sterka vínið og tóbakið sé tilkomin vegna manneldissjónarmiða einhverra, hvort menn séu almennt að viðhalda háum sköttum á þessa vöru sem aðra eða hvort það sé liður í áfengisstefnu stjórnvalda að hækka álögur á sterkt vín en að halda þeim neðar á hitt. Þá kemur aftur upp spurningin: Hver eru áhrifin á neyslu á sterku víni sem er í undirheimunum, smygli og landabruggi sem menn telja eins og ég sagði áðan að sé gríðarleg? Þetta allt væri gaman og fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra.

Þá er ekki hægt að hverfa frá þessari umræðu án þess að nefna að það er ansi kúnstugt að hækkun á áfengisgjaldi þurfi að ræða í skjóli myrkurs með þeim rökum að fólk rjúki til og hamstri vín í vínbúðum landsins ef vínbúðir eru opnar á meðan málið er afgreitt frá Alþingi. Málið þarf að ræða og afgreiða í skjóli myrkurs af því að stjórnvöld telja að fólkið rjúki út og fari að hamstra sterkt vín út af 7% hækkun. Þetta er mjög kúnstugt, undarlegt í besta falli.

Það væri fróðlegt að fá svör frá hæstv. ráðherra við þessum spurningum. Hyggst hann beita sér fyrir því að hluta af skattahækkuninni verði varið til starfsemi SÁÁ eða annarrar skyldrar starfsemi í forvörnum og meðferð á áfengissjúklingum og neytendum ólöglegra fíkniefna? Hefur farið fram eitthvert mat á því hvaða áhrif hækkunin á áfengisgjaldinu hafi á sölu á smygluðum spíra, sterku víni og landabruggi? Hyggjast stjórnvöld taka eitthvað sérstaklega út hvert umfang neyslunnar sé hlutfallslega miðað við neyslu á sterku víni? Menn hafa séð að neysla á sterku víni hefur minnkað á pappírunum meðan neysla á léttu víni og bjór hefur aukist stórkostlega.

Þá væri að mínu mati nauðsynlegt að fá inn í þær tölur raunsanna áætlun um neyslu á smygli og landabruggi sem er náttúrlega stórhættuleg og hefur oft leitt af sér stórslys þar sem menn hafa drukkið baneitraðan viðbjóð sem hefur annaðhvort orsakað blindu eða dauðsfall. Það er mjög mikilvægt að draga það fram hvort þessi skattahækkun á sterka vínið muni að mati færustu manna leiða til aukinnar neyslu á smygli og landabruggi. Ef svo er er betur heima setið en af stað farið og þá ættu menn frekar að huga að því að fara aðrar leiðir til að berjast fyrir breyttu áfengisneyslumynstri en þessa.