131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[13:46]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, en mig langar til að koma að nokkrum sjónarmiðum varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar, frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál, og koma fram bæði í greinargerð með frumvarpinu og í nefndaráliti. Einnig langar mig til að varpa fram a.m.k. tveimur spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er málið sem er hér til umfjöllunar vel þekkt. Þetta er mál sem ekki fer lágt í umræðunni, heldur hátt. Hér er á ferðinni hækkun á húsnæðislánum upp í 90%. Þetta mál var eitt af þeim sem fóru hvað hæst í aðdraganda síðustu kosninga og rötuðu inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sagt er að stefnt skuli að því að hækka húsnæðislán upp í allt að 90%. Við það stefnumið er staðið með frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Það er rétt að geta þess að þegar þetta stefnumál kom inn í stjórnarsáttmálann voru aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði allt aðrar en nú eru, þar á meðal á húsnæðislánamarkaðnum. Á þeim tíma bauð Íbúðalánasjóður bestu vextina og sat í rauninni einn að húsnæðislánamarkaðnum, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Viðskiptabankarnir, sem eru einkafyrirtæki, hafa blandað sér inn í þau viðskipti og haslað sér völl á húsnæðismarkaði. Það sama má segja um sparisjóðina og jafnvel lífeyrissjóðina, sem hafa boðið lægri vexti til húsnæðis- og fasteignakaupenda og hærri hlutföll en við höfum áður séð á þeim markaði.

Þetta eru atriði sem allir sem þekkja, öll þjóðin þekkir. Í kjölfar þessara breytinga hefur orðið nokkur umræða um Íbúðalánasjóð og stöðu hans á markaðnum og menn hafa sett fram ákveðin sjónarmið um hvort eðlilegt sé að ríkið taki þátt í lánamarkaði með þessum hætti. Um þetta eru skiptar skoðanir eins og sjá má í umsögnum sem nefndinni bárust og kemur fram í nefndarálitinu. Sumir telja mikilvægt að styrkja Íbúðalánasjóð svo hann geti áfram verið raunverulegur valkostur fyrir fólk í fasteignakaupum, en aðrir telja að hlutverk sjóðsins eigi fremur að einskorðast við að gegna félagslegu hlutverki, svo sem að sinna lánveitingu til fólks sem hefur ekki mikið á milli handanna og sömuleiðis til lánveitinga vegna fasteignakaupa á landsbyggðinni. Í þriðja lagi má benda á sjónarmið sem einnig hefur heyrst í umræðunni að ríkið eigi hreinlega að draga sig út af þessum markaði.

Í nefndarálitinu segir að nefndin telji og bendi á að sú fyrirgreiðsla sem Íbúðalánasjóður veitir og hefur veitt sé forsenda fyrir jöfnum aðgangi að lánsfé til fasteignakaupa, óháð búsetu eða félagslegri forsögu einstaklinga, og markmið með hækkun lánshlutfalls sé að auðvelda kaupendum minni og meðalstórra fasteigna að fá heildstæða fjármögnun til slíkra kaupa. Þetta eru sambærileg sjónarmið við það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að sú breyting sem nú hefur orðið á lánsframboði sé jákvæð fyrir þróun íslensks húsnæðismarkaðar er jafnljóst að Íbúðalánasjóður og sú fyrirgreiðsla sem sjóðurinn veitir er forsenda fyrir jöfnum aðgangi almennings að lánsfé til fasteignakaupa, óháð búsetu eða fjárhagslegri forsögu. Ljóst er að atburðarásin á lánamarkaði undanfarna mánuði sýnir með skýrum hætti að tilvist og lánaframboð Íbúðalánasjóðs felur í sér nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum.“

Nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að orðalagið, eins og það kemur fram í greinargerðinni, og tekið er undir í áliti nefndarinnar, sé varlegt. Afsakið, ég leiðrétti að það er ekki tekið undir þetta í nefndarálitinu, eins og kom hér fram, ekki með frammíkalli, heldur með líkamshreyfingum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ef við skoðum markaðinn þá snýst þetta ekki um aðhald ríkisins gagnvart einkafyrirtækjunum, þ.e. viðskiptabönkunum sem eru í einkaeigu. Hér er mjög hörð samkeppni í gangi, samkeppni í sinni hörðustu mynd, einkum hvað varðar vaxtakjör á húsnæðislánamarkaðnum. Sama sjónarmið kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag sem talaði um og lagði ríka og mikla áherslu á að við yrðum að tryggja samkeppnishæfni og auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs gagnvart lánastofnunum. Sem sagt – auka samkeppnishæfni ríkisins gagnvart einkaaðilunum. Þetta er það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði mikla áherslu á.

Mörg þessara sjónarmiða eru góð og gild og ég hef skilning á þeim, en ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þessi mál, þar á meðal húsnæðismálin og lánamálin, til stöðugrar endurskoðunar. Ég tel að markaðurinn hafi breyst það mikið á síðustu vikum og mánuðum með innkomu einkaaðila sem hafa boðið lántakendum, fólkinu í landinu, miklu lægri vexti við kaup á húsnæði en áður hefur þekkst, að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til endurskoðunar.

Sömuleiðis hef ég efasemdir um, og tel óeðlilegt að sjóður eins og Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins og rekinn af hinu opinbera og nýtur þeirrar stöðu að hafa ríkisábyrgð og grundvallar allt starf sitt á henni, taki þátt í jafn hatrammri samkeppni um vaxtakjör til einstaklinga á markaði og nú er, í þessu tilviki hjá fasteignakaupendum.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég blandaði mér í umræðuna, og úr því hæstv. félagsmálaráðherra er hér í húsinu, langar mig til að varpa fram tveimur spurningum og óska eftir að hann geri grein fyrir skoðunum sínum hvað þær varðar í ræðu sinni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að Íbúðalánasjóður taki þátt í samkeppni við viðskiptabankana, sparisjóðina og eftir atvikum lífeyrissjóðina, um að bjóða lægstu vexti á markaði til neytenda, til fasteignakaupenda, með hliðsjón af því að Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar sem hinir aðilarnir njóta ekki. Telur hæstv. félagsmálaráðherra að þátttaka ríkisins á þessum markaði sé eðlileg eins og hún er nú og sér hann fyrir sér einhverjar breytingar hvað aðkomu Íbúðalánasjóðs að þessum hluta starfseminnar og samkeppninnar varðar?

Í annan stað, eins og ég vék að áðan, kom fram í umsögnum að skiptar skoðanir eru meðal manna um hvort Íbúðalánasjóður eigi að starfa. Sumir eru þeirrar skoðunar að svo sé, og að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt fyrir fasteignamarkaðinn, en aðrir telja að hann eigi einungis að sinna félagslegu hlutverki sínu og svo er þriðji hópurinn sem telur að ríkið eigi ekkert að vera að vasast í starfsemi eins og þessari. En ef við gefum okkur það, og ég geri ráð fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra telji að réttlæta megi tilvist Íbúðalánasjóðs á þessum markaði, þá langar mig að spyrja hann hvort ekki nægi að einskorða þátttöku Íbúðalánasjóðs við lánveitingar til hinna eignaminni og til þeirra svæða úti á landi þar sem viðskiptabankarnir sinna einstaklingum kannski ekki með sama hætti og Íbúðalánasjóður hefur gert – nægir ekki einfaldlega að Íbúðalánasjóður sinni þessu hlutverki, en láti einkaaðilunum eftir þann markað sem eftir stendur?

Ég mundi vilja fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því hvort hann sjái fyrir sér einhverjar breytingar í framtíðinni hvað aðkomu sjóðsins að þessum markaði varðar.

Að öðru leyti hef ég ekki meira um málið að segja. Nefndarálitið sem hér er til umræðu er ítarlegt og gagnlegt og ég þakka þá málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um það. En ég óska eftir að hæstv. félagsmálaráðherra geri grein fyrir þessum sjónarmiðum og svari þeim spurningum sem ég hef varpað fram til hans.