131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:39]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá málefnalegu umræðu, mestan part, sem um þetta mál hefur verið í dag. Að mínu viti höfum við hér afar mikilvægt mál til umfjöllunar og er ánægjulegt hve mikill samhljómur er um það í sölum Alþingis. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki.“

Í ljósi þróunar á húsnæðislánamarkaði á undanförnum mánuðum er mikilvægt að ríkisstjórnin undirstriki hvaða hlutverk hún ætlar Íbúðalánasjóði. Við undirbúning lagabreytinga vegna hækkunar lánshlutfalls sjóðsins sem og breyttrar fjármögnunar hans hefur það verið haft að leiðarljósi að sjóðnum verði eftirleiðis gert kleift að tryggja fólki, hvar í landinu sem það býr, aðgang að fjármagni til kaupa á hóflegu íbúðarhúsnæði á hagkvæmustu kjörum og með allt að 90% lánshlutfalli í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Þetta er sú stefna sem ríkisstjórnin setti sér með stefnuyfirlýsingu sinni og út frá henni hefur verið unnið.

Hæstv. forseti. Ég tel afar mikilvægt að áfram verði stuðst við þetta stefnumið. Í því ljósi er mikilvægt að grípa til ákveðinna aðgerða til að aðlaga sjóðinn breyttum aðstæðum út frá hagsmunum húsnæðiskaupenda, hagsmunum Íbúðalánasjóðs og þar með ríkisins og hagsmunum annarra aðila á markaði.

Í fyrsta lagi þarf að bregðast við uppgreiðslum á eldri lánum Íbúðalánasjóðs og í öðru lagi þeirri staðreynd að of lágt hámarkslán sjóðsins í gjörbreyttu umhverfi á lánamarkaði geri það að verkum að hann er ekki virkur á markaðnum á höfuðborgarsvæðinu, sem aftur getur leitt til verri kjara hans við fjármögnun og þar með endurlán. Það gæti kallað á annað af tvennu: verri lánskjör gagnvart þeim sem minna mega sín á húsnæðislánamarkaði og þeim sem búa á landsbyggðinni eða að öðrum kosti að ríkissjóður greiði niður vexti til þessara hópa, sem ekki getur talist sérlega heillandi framtíðarsýn.

Hæstv. forseti. Þegar ég mælti fyrir þessu máli á Alþingi fyrir fáeinum vikum var gert ráð fyrir því að hámarkslán Íbúðalánasjóðs mundi við gildistöku laganna hækka í 13 millj. kr. Þeirri tölu til grundvallar lá sú lauslega skilgreining að hóflegt íbúðarhúsnæði, eins og rætt er um í stjórnarsáttmála, væri um fjögurra herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim tíma sem viðmiðunin tók til var meðalverð slíkrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu 14,4 millj. kr. 90% af því verði eru 13 millj. kr. Gert var ráð fyrir að húsnæðisverð mundi til loka kjörtímabilsins þróast líkt og það hafði gert missirin þar á undan. Verð hóflegrar íbúðar yrði þannig rúmlega 17 millj. kr. í lok kjörtímabilsins og hámarkslánið því um 15,4 millj. kr.

Það er álit þeirra sem best þekkja til á húsnæðismarkaði, og hefur komið fram við umræðuna í dag, að eðlilegra sé, við skilgreiningu á meðalhúsnæði, að miða við fermetrafjölda en herbergjafjölda. Er það ekki síst í ljósi þess að herbergjafjöldinn segir ekki allt um stærð íbúðar, fjögurra herbergja íbúð getur allt eins verið 200 fermetrar og 80 fermetrar.

Samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar frá því í júní á þessu ári er meðalstærð húsnæðis 119 fermetrar. Það er þó breytilegt eftir staðsetningu. Samantekt Fasteignamats ríkisins sýnir að í október fyrir ári var meðalverð húsnæðis af stærðinni 110–130 fermetrar á höfuðborgarsvæðinu 14,9 millj. kr., 90% af því eru 13,5 millj. kr. Í október síðastliðnum var verðið hins vegar komið í 16,5 millj. kr., 90% af því eru 14,8 milljónir og hefur því verðið hækkað um 10% á einu ári.

Í umræðu undanfarna daga, m.a. í tengslum við umfjöllun félagsmálanefndar um málið sem hér er til umræðu hafa ýmsir aðilar bent á nauðsyn þess að hækka hámarkslán umfram það sem ráðgert var við framlagningu frumvarpsins. Ég tek undir mikilvægi þess, hæstv. forseti, að hámarksfjárhæðin sé endurskoðuð og hámarkslánið hækki enn frekar. Er enda örðugt að sjá að hófleg hækkun hámarkslánsins frá því sem nú er áætlað hafi nokkur efnahagsleg áhrif né áhrif á þróun fasteignaverðs, eins og húsnæðislánamarkaðurinn hefur þróast að undanförnu. Einnig hefur við meðferð málsins verið bent á að unnt sé að hægja á uppgreiðslum áhvílandi lána Íbúðalánasjóðs með því að auka svigrúm sjóðsins til að veita veðleyfi.

Hæstv. forseti. Að öllu virtu er það niðurstaða mín að grípa til eftirfarandi aðgerða til að fylgja eftir því markmiði ríkisstjórnarinnar að marka Íbúðalánasjóði ákveðinn bás á húsnæðislánamarkaði. Honum verði gert kleift að bjóða fólki 90% lán til kaupa á hóflegu húsnæði á hagkvæmustu kjörum. Er rétt að ítreka að með hóflegu húsnæði er átt við meðalverð 110–130 fermetra íbúðar á höfuðborgarsvæðinu.

Við gildistöku laganna mun ég því gefa út reglugerð til hækkunar hámarkslánsins þannig að það nemi 14,9 millj. kr., eða 90% af meðalverði síðastliðinna sex mánaða, sem nú er 16,6 millj. kr. Enn fremur verði gripið til aðgerða til að draga úr uppgreiðslum lána hjá Íbúðalánasjóði.

Gefin verði út reglugerð þar sem sjóðnum verði heimilt að fallast á veðsetningu á undan öðrum áhvílandi lánum sjóðsins en ÍLS-veðbréfum, svo fremi sem sameiginleg uppreiknuð fjárhæð eftirstöðva lánsins og nýs láns er ekki hærri en hámarkslán Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma, hún rúmist innan matsverðs eignarinnar og fari ekki yfir 90% af markaðsvirði. Þessi heimild mun væntanlega einkum nýtast þeim sem þegar hafa greitt verulegan hluta áhvílandi lána sinna, en þurfa að skuldbreyta öðrum lánum.

Með þeim aðgerðum sem ég hef hér lýst hæstv. forseti, tel ég að ég hafi gripið til þeirra ráða sem mér eru fær í því augnamiði að tryggja stöðu Íbúðalánasjóðs og þar með ríkissjóðs við gjörbreyttar aðstæður á húsnæðislánamarkaði. Sjóðnum hefur um leið verið afmarkaður ákveðinn bás á markaðnum og þannig skotið stoðum undir möguleika hans til framtíðar, en ekki síður, hæstv. forseti, skapað nauðsynlegt rými fyrir aðrar lánastofnanir á þessu sviði.

Við umfjöllunina í dag, hæstv. forseti, hefur verið fjallað um samkeppni á húsnæðislánamarkaði og stöðu Íbúðalánasjóðs við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi. Eins og kunnugt er kom hinn 11. ágúst 2004 niðurstaða frá Eftirlitsstofnun EFTA um lögmæti lána Íbúðalánasjóðs gagnvart ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Í ákvörðun ESA var fallist á hækkun hámarksláns og talið að starfsskilyrði Íbúðalánasjóðs stæðust í einu og öllu ákvæði EES-samningsins. Þá var fallist á þau rök íslenskra stjórnvalda að fyrirkomulag íbúðalána Íbúðalánasjóðs feli í sér almannaþjónustu sem sé heimilt samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Ástæða er til, hæstv. forseti, að taka þetta fram hér við þessa umræðu.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hér í dag að full ástæða er til þess að fagna aukinni þátttöku banka og annarra fjármálafyrirtækja á húsnæðislánamarkaði. Ég get eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagt: Loksins, loksins. Ég vona sannarlega að þessi fyrirtæki séu komin inn á þennan markað til að vera og þá með framboð þeirra lánskjara sem nú gilda.

Þær breytingar sem Alþingi gerði liðið vor á lögum um húsnæðismál og varða fjármögnun Íbúðalánasjóðs hafa án vafa stuðlað að auknu framboði lánsfjármagns á kjörum sem ekki hafa áður boðist almenningi hér á landi. Þær hafa því tekist vel og um þessar breytingar var góð samstaða á Alþingi.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson beindi til mín tveimur spurningum, hæstv. forseti, í fyrsta lagi um vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Um það er að segja að sjóðurinn á í sjálfu sér lítið val um aðferðafræði við vaxtaákvörðun. Alþingi hefur með lögum frá því í vor ákveðið að sjóðurinn skuli lána út á fjármögnunarkjörum sínum að viðbættu skýrt fyrir fram skilgreindu vaxtaálagi. Þannig eru vextir hans ákvarðaðir, hæstv. forseti, en alls ekki með tilliti til vaxta annarra lánastofna á húsnæðislánamarkaði og ástæða er til að undirstrika þetta hér.

Í öðru lagi gerði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að umfjöllunarefni hlutverk Íbúðalánasjóðs, félagslegt hlutverk ekki síst.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni í dag þá er mikilvægt að stjórnvöld marki sjóðnum ákveðinn bás á þeim lánamarkaði sem hér er til umfjöllunar og ég hef gert grein fyrir þeirri stefnumörkun. En í núverandi húsnæðislánakerfi er það forsenda fyrir getu Íbúðalánasjóðsins, getu hans til að bjóða þeim sem lakast standa lán, að hann hafi tiltekna stærð og veiti einnig almenn lán. Eftirlitsstofnun EFTA hefur, eins og áður sagði, farið yfir þessi mál og komist að sömu niðurstöðu. Ef sjóðnum væri einungis ætlað að veita félagslega húsnæðisaðstoð værum við að breyta í grundvallaratriðum um húsnæðiskerfi og engin leið að sjá slíkt fyrir sér öðruvísi en til þess væri þá lagt umtalsvert fjármagn af ríkisins hálfu, nokkuð sem ég reikna með að við hv. þingmaður getum verið sammála um að sé ekki sérlega heillandi framtíðarsýn.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði að umfjöllunarefni hámarkslán sjóðsins, aukið veðrými og stöðu félagslega húsnæðisins og leigumarkaðarins. Ég hef þegar fjallað um tvö fyrrnefndu atriðin hæstv. forseti, en síðastliðið haust skipaði ég nefnd til þess að yfirfara stöðu leigumarkaðarins og gera tillögur um aukið framboð leiguíbúða. Nefndin átti sömuleiðis að greina biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum eða félagasamtökum. Í niðurstöðum nefndarinnar kom fram að staða leigumarkaðarins væri almennt góð, framboð leiguhúsnæðis væri fullnægjandi og ljóst að það átak sem ríkisstjórnin stóð fyrir í uppbyggingu leiguíbúða árið 2001 hefði skilað góðum árangri. Í frumvarpi því sem við nú ræðum er gert ráð fyrir að stuðlað verði að eflingu leigumarkaðarins með því að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða tvenns konar lán til byggingar leiguíbúða, annars vegar verði sem fyrr boðin lán með breytanlegum vöxtum sem eru nú 4,9%, hins vegar upp á lán með föstum vöxtum en án uppgreiðsluheimildar.

Við gildistöku ákvæða frumvarps þessa verður til heildstætt og einsleitt húsnæðiskerfi. Með því er lokið við það umbótaferli sem hófst með setningu laga um húsnæðismál árið 1998. Tilkoma viðbótarlánakerfisins í stað félagslega íbúðakerfisins árið 1999 hefur sannað gildi sitt, aukið valfrelsi tekju- og eignaminni kaupenda og dregið úr neikvæðum félagslegum afleiðingum afmarkaðra félagslegra íbúða.

Nefnd sú sem ég hér minntist á, hæstv. forseti, vann gott starf, gerði margar gagnmerkar tillögur. Úr þeim er nú unnið í félagsmálaráðuneytinu.

Örlítið um uppgreiðslugjald, hæstv. forseti, sem talsvert hefur komið til umfjöllunar í dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að kveða á um í reglugerð að Íbúðalánasjóði verði kleift að bjóða húsnæðislán án endurgjaldslausrar uppgreiðsluheimildar í samræmi við almenn lagaákvæði á hverjum tíma. Í breytingum þeim á lögum um húsnæðismál sem Alþingi samþykkti á liðnu vori var gert ráð fyrir að skuldurum ÍLS-veðbréfa væri ávallt heimilt að greiða aukaafborganir eða greiða skuldina upp að fullu fyrir gjalddaga án endurgjalds. Í því skyni að standa undir þessari heimild var gert ráð fyrir að hluti vaxtaálags sjóðsins mundi verja sjóðinn tapi.

Ástæða þess að sú leið var farin var það mat félagsmálaráðuneytisins að breytingar sem gerðar voru á lögum um neytendalán í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis árið 2000 yllu því að ákvæði þeirra laga tækju nú einnig til íbúðalána. Á undanförnum mánuðum hefur komið fram að viðskiptabankarnir leggja ekki þennan skilning í ákvæði laga um neytendalán og hafa sett ákvæði um uppgreiðslugjald inn í skilmála íbúðalána sinna. Athugasemdum um þetta mun hafa verið beint til Samkeppnisstofnunar og Fjármálaeftirlits og mun það vera til athugunar hjá þeim stofnunum.

Félagsmálaráðuneytið lítur svo á að ef það er skilningur þeirra eftirlitsstofnana sem með málið fara að lög um neytendalán krefjist þess ekki að uppgreiðslugjald sé óheimilt séu engar forsendur fyrir því að gera aðrar kröfur til Íbúðalánasjóðs að þessu leyti en til annarra þeirra sem veita íbúðalán á markaði. Því sé eðlilegt að ráðherra hafi heimild til að veita Íbúðalánasjóði þetta svigrúm ef réttmætar eftirlitsstofnanir komast að þeirri niðurstöðu að það sé löglegt. Rétt er að athuga að þetta lagaákvæði felur ekki í sér sjálfstæða heimild til Íbúðalánasjóðs til að veita lán með þessum hætti heldur er forsenda þess að unnt sé að beita ákvæðinu sú að almenn lög heimili það.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi í máli mínu svarað þeim spurningum sem til mín var beint. Ég vil að lokum vekja sérstaka athygli á þeirri samstöðu sem um þetta mál er á Alþingi. Hv. félagsmálanefnd hefur innt af hendi afar gott starf við umfjöllun málsins og náð saman um það í öllum meginatriðum. Ég vil ljúka máli mínu á að þakka nefndinni sérstaklega starf hennar, hæstv. forseti.