131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Flestir vita að óbreytt krónutala í verðbólgu rýrnar. Þetta vita flestir og menn vita að þeir geta keypt sífellt minna og minna fyrir sömu krónutöluna þó að verðbólgan sé mjög lítil. Þetta vita sérstaklega þeir sem upplifðu verðbólgu fyrr á árum.

Það sem hefur verið að gerast undanfarið er aðlögun, og þetta ræddum við í gær, aðlögun gjalda að verðbólgu til að þau haldi verðgildi sínu. (Gripið fram í: En skattar?) Vilja menn t.d. að það kosti alltaf það sama í krónutölu að skrá hlutafélag? Vilja menn það virkilega? Þau gjöld sem hafa verið að hækka undanfarið eru til að aðlagast verðbólgu. Þau hafa ekki náð því, langt í frá, og gott dæmi er einmitt áfengisgjaldið sem hv. þm. nefndi. Það hefur verið hækkað á sterkum vínum og tóbaki í takt við verðbólguna þannig að gjaldið heldur verðgildi sínu en gjaldið á léttvín og bjór hefur ekki verið hækkað. Það er meðvitað til að flytja neysluna yfir í þær vörur. Með því að hækka þessi gjöld eru þau í reynd að lækka. Ég veit ekki í hvaða landi þeir hafa búið sem ekki skilja þetta.

Á Íslandi var einu sinni verðbólga og flestir skildu að krónutala sem ekki jókst í takt við verðlag rýrnaði. (Gripið fram í.) Ég er búinn að spyrja hv. þingmann aftur og aftur. Það er ekki skattahækkun þegar skráningargjald fyrir skráningu hlutafélaga er hækkað úr 150 þús. kr. upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. Það er ekki skattahækkun, það er skattalækkun í mínum huga. (Gripið fram í: … missa tökin …)