131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:59]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er farin að snúast upp í einhverja vitleysu af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Auðvitað er bráðfyndið að hlusta á formann Samfylkingarinnar hlaupast undan merkjum og geta ekki svarað fyrir skattstefnu Samfylkingarinnar hvað varðar matarskatt, eins og hún var í mars árið 2003, og kenna einhverjum óskilgreindum símastrák um þau svör sem birtust opinberlega.

Hv. þingmaður fjallaði um það að þessar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar nýttust bara ríka liðinu í þjóðfélaginu. Nú er það ekki svo. Þetta eru skattalækkanir fyrir venjulegt fólk. Ef við tökum þau hjón sem líklega yrðu skilgreind sem venjulegasta fólkið í þjóðfélaginu væru það kennarahjón með tvö börn. Hvað ætli þau hagnist í ráðstöfunartekjum á mánuði? Það eru yfir 32 þús. kr., 392 þús. kr. á ári, og af þessu hefur hv. formaður Samfylkingarinnar áhyggjur. Kennarar hafa hins vegar engar áhyggjur af slíkri kaupmáttaraukningu.