131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:08]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að yfirskriftin á áliti Samtaka eldri borgara er önnur en niðurstaða þess vegna þess að þegar upp er staðið koma aldraðir mjög vel út úr skattbreytingunum.

Ég held að við getum, sem bæði höfum reynslu af því að berjast fyrir bættum kjörum launafólks, verið sammála um að það þýði lítið að berjast fyrir bættum kjörum ef ríkið fer aftur um leið með krumlurnar ofan í vasana. En fyrir því er flokkur hv. þingmanns að berjast í borginni.

Á sama tíma og við lækkum skatta á landsmenn er R-listinn að hækka skatta á borgarbúa. Hv. þingmaður benti m.a. á að lækkun á eignarskatti gagnaðist sumum lítið ef fasteignaskattar hjá sveitarfélögunum hækka á móti. Hver stendur fyrir því? Hver skerðir með því kjör launamanna? Það er R-listinn og Vinstri grænir eru hluti af R-listanum.

Hv. þm. talaði áðan um að skoða hlutina í samhengi. Vissulega verður að gera það. Við verðum að vita hvar við stöndum.