131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:51]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom víða við í ræðu sinni. Hann vék m.a. að eignarsköttum og nálgaðist þar einhverja hugmynd um að hægt væri að búa til skilgreiningu á stóreignum sem bæri að skattleggja meðan afnema bæri skatt af því sem hann kallaði eðlilegt íbúðarhúsnæði.

Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvernig hv. þingmanni gengur að finna út hvað er eðlilegt íbúðarhúsnæði. Það getur verið mjög misjafnt eftir aðstæðum og spurning hvort hann treysti sér til að setja þær skilgreiningar, hvað er eðlilegt að fólk búi í stóru húsnæði. Ég verð að játa að mér geðjast ekki alveg að þeirri hugsun.

Ég vildi spyrja hv. þingmann í sambandi við eignarskattana hvort hann meti stöðuna svo að eignir séu eðlilegur skattstofn. Fyrir sjö eða átta árum var gerð sú grundvallarbreyting að tekinn var upp sérstakur skattur á arð, þ.e. af hagnaði eða tekjum sem menn hafa af eignum sínum. Tekjur af eignum eru skattlagðar með fjármagnstekjuskatti. Spurningin er hvort hv. þingmanni finnst eðlilegt að eignirnar sjálfar séu einnig skattlagðar. Hugsunin á bak við breytingu ríkisstjórnarinnar, bæði í lok síðasta kjörtímabils þegar eignarskatturinn var lækkaður og eins þá breytingu sem felst í afnámi hans, gengur út á það að taka burt þennan skattstofn. Það er talið eðlilegra að skattleggja tekjurnar sem menn hafa af eignum sínum en ekki eignirnar sjálfar.