131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:35]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessar skattalækkanir eru mögulegar vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa fylgt við að byggja upp atvinnulíf í landinu. Þess vegna skapast hagvöxturinn sem við getum notað núna. Það er vegna staðfestunnar gagnvart iðnaðarmálum sérstaklega. Þar vil ég nefna að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa barist á móti þeim áformum í langan tíma. Það þarf ekki að fjölyrða um Vinstri græna sem hafa verið á móti þeim frá upphafi og Samfylkingin hefur líka verið á móti þessum málum, á móti íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni sem var forsenda fyrir því að hér var hægt að efla hagvöxt.

Virðulegur forseti. Framsóknarmenn hafa lagt mjög mikla áherslu á þessar skattalækkanir, sérstaklega á barnabæturnar. Ég vil tína þær til. Þar er verið að setja 2,4 milljarða í viðbót til að auka hag og bæta hag barnafjölskyldna.

Varðandi eignarskattana lendir meginþungi eignarskatts í dag á þeim sem hafa eina og hálfa millj. eða minna í árstekjur. Það eru ekki hin breiðu bök, virðulegi forseti, þannig að ég segi líka já með fögnuði hér.