131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

300. mál
[11:09]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég tel að hér gæti ákveðins misskilnings. Ég tel að þrátt fyrir brottfall laganna um Lífeyrissjóð sjómanna verði staða launþega í sjómannastétt nákvæmlega sú sama og annarra launþega hvað varðar tryggingar fyrir greiðslu lífeyrisiðgjalda í lífeyrissjóðinn.

Það er auðvitað þannig að iðgjöld í lífeyrissjóði eru forgangskröfur komi til uppgjörs, gjaldþrots eða þrotabús. Þar að auki annast Ábyrgðasjóður launa greiðslur iðgjalda ef málið fer það langt. Það sem er að gerast hér er einfaldlega að gamlar reglur um svokallað lögveð í skipum vegna lífeyrisiðgjalda sjómanna eru úreltar orðnar. Þær áttu við þegar þær voru settar í lög 1960. Sem betur fer hefur orðið mjög jákvæð þróun í lífeyrissjóðamálum síðan og nú er eðlilegt að þær reglur sem almennt gilda um launþega þessa lands gildi sömuleiðis um aðila að Lífeyrissjóði sjómanna. Ég segi þess vegna nei, herra forseti.