131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:17]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum ágætar umræður. Það er kannski til marks um hve sterkar skoðanir eru á málinu, sem ekki lætur mikið yfir sér, hversu margir hv. þingmenn hafa séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni.

Mig langar einnig til að þakka þingnefndinni fyrir ágæta vinnu sem hún hefur lagt í málið. Þetta er lítið frumvarp en langveigamesta tillagan sem þar er færð í lagatexta er sölubann á rjúpur og afurðir þeirra og raunar er því sölubanni ætlað að geta gilt um veiðar á öðrum tegundum líka.

Með þessu er náð til þeirra sem hafa verið kallaðir magnveiðimenn. Ég tek undir með þingmönnum hvað það snertir að langmikilvægast er í þessum efnum að ná til þeirra vegna þess að magnveiðimenn hafa veitt helminginn af þeirri rjúpu sem veidd hefur verið árlega. Því til viðbótar eru frekari heimildir til takmörkunar á notkun vélknúinna ökutækja og takmarkanir á veiðitíma sem eiga þá við ákveðna daga og ákveðna tíma sólarhringsins.

Ég vil rifja upp hverjir það eru sem sömdu þetta frumvarp. Ég legg áherslu á að þar koma saman sérfræðingar á þessu sviði og einstaklingar sem tilnefndir eru af hagsmunasamtökum. Í nefndinni áttu sæti og eiga raunar sæti því hún starfar enn, svokölluð rjúpnanefnd, og á eftir að skila lokatillögum sínum sem væntanlega líta dagsins ljós í vor. Nefndin hefur verið að vinna að tillögum um rannsóknir og hefur unnið að stofnstærðarlíkani á rjúpu. Það er í vinnslu og lýkur núna á vordögum og erlendur sérfræðingur hefur verið fenginn til ráðgjafar við nefndina í þeirri vinnu. Talning síðasta vor sýndi svo sannarlega að stofninn er í mikilli uppsveiflu.

Ég ætla að telja upp þá sem sitja í rjúpnanefndinni. Það eru Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, formaður, Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Áki Ármann Jónsson forstöðumaður, tilnefndur af Umhverfisstofnun, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, tilnefndur af sambandinu, Ólafur Einarsson fuglafræðingur, tilnefndur af Fuglaverndarfélagi Íslands, Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, og Ari Teitsson, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, tilnefndur af samtökunum.

Það sem er svo mikilvægt í þessu sambandi er að þarna koma saman aðilar frá ólíkum samtökum, umhverfisráðuneyti og stofnunum þess og þeir ná sameiginlegri niðurstöðu eftir að hafa farið mjög vandlega ofan í þessi mál. Þess vegna legg ég áherslu á að það frumvarp sem hér liggur fyrir er afrakstur af þeirri vinnu og því að þessir aðilar hafa náð saman.

Síðan er auðvitað endalaust hægt að hafa skoðanir á því hvort veiðibannið hefði átt að gilda þau þrjú ár sem upphaflega var lagt af stað með. Sú tillaga sem liggur fyrir og þau áform sem sú sem hér stendur hefur uppi um að leyfa veiðar í haust er allt saman gert að mjög vel athuguðu máli. Þetta eru tillögur sem eru lagðar fram til sátta í málinu. Ég minni á að tvær stofnanir umhverfisráðuneytisins voru algerlega á öndverðum meiði í málinu fyrir tæpum tveimur árum þar sem Umhverfisstofnun lagði til að veiðar yrðu leyfðar áfram en Náttúrufræðistofnun lagði til alfriðun. Hins vegar hafa fulltrúar þeirra náð saman í þessari vinnu um að leggja til sölubannið og hafa lýst sig samþykka því að farið verði í veiðar í haust að því tilskildu að ekkert óvænt komi fram t.d. við talningu á rjúpu næsta vor. Mér finnst þetta mjög mikilvægt þegar þessi mál eru rædd.

Því til viðbótar hafa komið fram breytingartillögur sem ég var að sjá í fyrsta skipti í morgun og ég veit að svo var um fleiri hér á Alþingi en hins vegar hafði hv. þm. Halldór Blöndal rætt þessi mál við 1. umr. Formaður umhverfisnefndar hefur lýst því yfir að nefndin muni ræða þessar tillögur á milli 2. og 3. umr. og kalla þá til sín sérfræðinga til að fara með nefndinni yfir málin. Ég tel að það sé mjög skynsamleg tillaga af hálfu formanns umhverfisnefndar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég legg áherslu á að ljúka þessu máli fljótt og vel.