131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að sú breyting sem á að gera á samkeppnislögunum hefur verið mikið hitamál á milli stjórnarflokkanna. Frumvarpið hefur nefnilega tekið verulegum breytingum frá þeim drögum að frumvarpi til samkeppnislaga sem hæstv. viðskiptaráðherra kynnti á heimasíðu ráðuneytisins í október 2004. Allar þær breytingar sem sjálfstæðismenn hafa náð í gegn hafa orðið til þess að veikja og draga mjög úr sjálfstæði stofnunarinnar, verði frumvarpið að lögum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að hann skildi ekki hvers vegna hæstv. ráðherra væri að fara þessa leið. Hæstv. ráðherra hefur bara ekkert val í þessu efni, hún er knúin til þess af íhaldinu að draga verulega úr þeim ákvæðum sem voru í upphaflegu frumvarpsdrögunum og það er alvarlegt þegar verið er að skerða sjálfstæði þessarar mikilvægu stofnunar í þjóðfélaginu.

Hvað hefur raunverulega breyst í umhverfinu frá því í október þegar hæstv. ráðherra lagði fram drög sín að frumvarpinu og kynnti tillögur sínar og þar til nú t.d. í byrjun mars? Jú, Samkeppnisstofnun skilaði niðurstöðu sinni í rannsókninni í olíumálinu þar sem olíufélögin voru sökuð um að ávinningur þeirra af verðsamráði væri 6,5 milljarðar kr. Það er það sem gerðist í millitíðinni. Maður spyr: Var það ástæða til að veikja Samkeppnisstofnun og samkeppnislög í ljósi þeirrar niðurstöðu? Nei, auðvitað ekki. Þvert á móti sannaði Samkeppnisstofnun þar gildi sitt, en af einhverjum ástæðum telur íhaldið greinilega ástæðu til að veikja stofnunina og kippa þeim stoðum sem forstöðumenn hennar höfðu til að halda uppi árangursríku og virku eftirliti.

Ef við förum yfir þær breytingar sem gerðar voru í millitíðinni eftir að þingflokkur sjálfstæðismanna hafði haft frumvarpið til umfjöllunar frá því í nóvember og þar til nýlega, hafði það í gíslingu í tvo mánuði, er ástæða til að fara yfir hvernig frumvarpið var veikt í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna. Mér sýnist nefnilega að þær breytingar sem á að gera á Samkeppnisstofnun þýði ekkert annað en að hægt verði að vera með pólitísk inngrip gegn hagsmunum neytenda þegar gerðir stofnunarinnar ganga gegn hagsmunum einhverra gæðinga stjórnarflokkanna, ef tillögurnar sem veikja stofnunina verða að veruleika.

Þegar verið er að veikja stofnun sem hefur staðið sig t.d. mjög vasklega í olíumálinu minnir það mann á þær aðgerðir sem stjórnarflokkarnir fóru í undir forustu hæstv. þáverandi forsætisráðherra þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður af því að hún var ekki nógu þæg við stjórnarflokkana og setti ýmislegt fram að því er varðar stöðu efnahagsmála og fleira sem var þeim ekki að skapi. Hér hefur Samkeppnisstofnun og forustumenn hennar farið í inngrip á markaðinn sem var nauðsynlegt og það hefur greinilega ekki verið stjórnarflokkunum að skapi.

Ef við förum yfir hverju var breytt t.d. í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna er það í fyrsta lagi ákvæðið sem nefndin sem fór yfir málið fyrir ráðherra og skilaði skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi lagði til, að heimiluð yrði húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja. Þar vísaði hún í reglur Evrópusambandsins og líka t.d. í norsku samkeppnislögin sem höfð voru til hliðsjónar við gerð frumvarpsins. Húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja er heimiluð í norskum lögum. Af því hefur verið góð reynsla og m.a. oft fundist samráðsgögn á heimilum forstjóra sem voru ekki vistuð í fyrirtækinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hún geti komist hjá því — ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé að hlusta — að setja inn ákvæðin með tilliti til reglugerðar Evrópusambandsins sem beinlínis kveður á um húsleitarheimildir á heimilum stjórnenda ef litið er til reglugerðarinnar sem fram kemur í fylgiskjölum með frumvarpinu.

Síðan það ákvæði sem hér hefur verið rætt um að fella brott ákvæði c-liðar í 17. gr. samkeppnislaga, sem er alveg með ólíkindum, um að Samkeppnisstofnun geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi nauðsynlegt að setja þessi ákvæði inn á árinu 1993.

Ákvæðin hafa vissulega mikil varnaðaráhrif og ég veit ekki betur en að túlkun samkeppnisráðs hingað til á ákvæði 17. gr. sé þess eðlis að það feli í sér að hægt sé að skipta upp fyrirtækjum. Af því að nú er verið að tala um að það séu einhver ný ákvæði og ný úrræði sem Samkeppnisstofnun sé að fá þá hefur verið litið á þetta þannig af hálfu samkeppnisráðs, að því ég best veit, að hún hafi þessa heimild þó ekki hafi verið gripið til hennar. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Þetta er túlkun mín á málinu og hv. þingmaður getur komið fram með sjónarmið sín á eftir.

Hæfisskilyrðið vekur kannski hvað mesta tortryggni og kann að vera það alvarlegasta í málinu. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að hér gæti verið um pólitískt möndl á milli stjórnarflokkanna að ræða. Í drögum ráðherra frá því í október tel ég að hafi verið inni ákvæði sem er í núgildandi lögum og kveður á um að stjórnarmenn megi ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Það er í lögunum núna og það er óskiljanlegt að það ákvæði sé tekið út. Maður veltir því fyrir sér hvað liggi þar að baki.

Skipan þessarar þriggja manna stjórnar sem þarna á að skipa er líkt við skipan stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í þeim lögum eru ákveðin ákvæði varðandi hæfisskilyrði stjórnarmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn, forstjóri og starfsmenn mega ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar eftirlitsskyldra aðila.“

Þar er það beinlínis tekið fram.

Mér finnast rökin sem hæstv. ráðherra setur fram fyrir því að fella þessi ákvæði brott óskiljanleg. Þetta býður náttúrlega upp á að valdir verði inn í þessa stjórn, sem ráðherrann á að skipa, ýmsa aðila sem hafa hagsmuna að gæta og eru í atvinnustarfsemi. Ég tel mjög brýnt að í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar verði þetta ákvæði tekið upp og sett skilyrði um að ekki megi skipa þá í þessa stjórn sem hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Við það bætist að stjórnin fengi vald sem veikti þau úrræði sem forstöðumenn stofnunarinnar hafa, að bera þyrfti allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa stjórn. Þar með vekur þetta enn þá meiri tortryggni en ella.

Allt er þetta sett fram undir því yfirskyni og vísað til þess að Samkeppnisstofnun og stjórn hennar eigi faglega að vera sjálfstæð gagnvart viðskiptaráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur stjórn stofnunarinnar ekki verið sjálfstæð gagnvart ráðherra? Hefur ráðherra verið með einhver afskipti af Samkeppnisstofnun með þeim hætti að ástæða sé til að breyta um eins og hér er verið að gera? Það er ástæða til þess að spyrja um þetta þegar litið er til þeirra raka sem sett eru fram um að ráðherra eigi að skipa stjórn þessa. Ég tel rökin sem tínd eru til um þetta í frumvarpinu afar furðuleg, virðulegi forseti. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þó að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn samkeppnismála er honum ekki ætlað að hafa bein afskipti af stjórn Samkeppniseftirlitsins og er því talið nauðsynlegt að sérstök stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar og hafi eftirlit með starfseminni.“

Þarna er beinlínis, samkvæmt orðanna hljóðan, ýjað að því að hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft pólitísk afskipti af stofnuninni og þess vegna sé ástæða til að breyta því og skipa sérstaka stjórn sem fari með yfirstjórn stofnunarinnar.

Það er hnykkt á þessu á bls. 23 þar sem fjallað er um 6. gr.:

„Í ljósi þess að Samkeppniseftirlitinu er ætlað að vera eini úrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustigi er enn mikilvægara en áður að Samkeppniseftirlitið sé faglega sjálfstætt gagnvart viðskiptaráðherra.“

Það er eins og hæstv. viðskiptaráðherra hafi bara verið með puttana í starfi Samkeppnisstofnunar, gefið henni bein fyrirmæli og þess vegna sé ástæða til að setja sérstaka stjórn yfir stofnunina.

Síðan er mjög sérstakt að stjórn stofnunarinnar skipi forstjórann, þessi þriggja manna stjórn sem ekki er ólíklegt og er a.m.k. hægt að skipa pólitískum fulltrúum flokkanna. Að forstjórinn verði skipaður af stjórn stofnunarinnar og sé í beinu ráðningarsambandi við stjórn stofnunarinnar er afar óeðlilegt. Mér sýnist að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi mikið verk fyrir höndum við að lagfæra þetta frumvarp.

Maður spyr líka, virðulegi forseti: Hvers vegna er verið að breyta ákvæðum samkeppnislaga? Hvaða forsendur gefur hæstv. ráðherra fyrir þessari breytingu? Voru breytingarnar byggðar á faglegu mati, t.d. stjórnsýsluúttekt? Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert. Fór fram rannsókn eða úttekt sem gaf til kynna að æskilegt væri að breyta öllu skipulagi stofnunarinnar eins og hér er verið að gera til að auka þá skilvirkni stofnunarinnar og gera henni kleift að halda uppi öflugu samkeppniseftirliti? Engin slík stjórnsýsluúttekt eða rannsókn liggur hér að baki.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var t.d. haft samráð við samkeppnisráð, forstöðumenn stofnunarinnar, um þessar breytingar? Hvað höfðu þeir til málanna að leggja? Ég trúi ekki, þegar farið er út í svo mikilvægar breytingar, að ekki sé leitað til þeirra sem gerst til þekkja til að vita a.m.k. hvað þeir hafa til málanna að leggja. Mig grunar að ekki hafi verið leitað til þeirra aðila.

Það sem háð hefur þessari stofnun er ekki skipulagsleysi, virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst peningaleysi og mannekla sem hefur háð þessari stofnun, ekki að breyta þurfi öllu skipulaginu í þeim eina tilgangi að veikja stofnunina, draga úr þrótti hennar og sjálfstæði hennar til að sinna verkefnum sínum.

Ég get t.d. vitnað í forstjóra stofnunarinnar í síðustu ársskýrslu. Þar fer hann mjög ítarlega yfir það hvernig fjársveltið hefur háð stofnuninni. Það hefur komið fram að mál þurfa stundum að bíða í 12–14 mánuði áður en hægt er að taka þau fyrir. Stofnunin þarf að forgangsraða mjög og málin þurfa því oft að bíða æðilengi. Við þekkjum það hvernig tryggingamarkaðurinn var til skoðunar í nokkur ár hjá stofnuninni og allur kraftur hennar fór í að rannsaka tryggingamarkaðinn. Hún hafði því ekki getu til að sinna öðrum málum og við vitum hvernig það fór, að sökin var fyrnd í þessu efni eins og við munum.

Ég minni á að ég átti orðaskipti við ráðherra fyrr í vetur um fjárþörf Samkeppnisstofnunar í tengslum við frumvarp sem ég flutti um að fram færi þarfa- og kostnaðargreining á því hve mikið fjármagn stofnunin þyrfti til að geta sinnt verkefnum sínum eðlilega. Þá lýsti hæstv. ráðherra því yfir að slík þarfa- og kostnaðargreining hefði farið fram. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að sú þarfagreining er ekki sem fylgiskjal með þessu frumvarpi til samkeppnislaga? Það væri mjög mikilvægt að við fengjum í hendur þessa þarfagreiningu sem hefur verið gerð, að mér skilst í samráði við stofnunina. Það hefur komið fram að 100 millj. kr. vanti til að stofnunin geti með eðlilegum hætti sinnt sínu hlutverki en hér á færa henni 60 millj. kr. Ef ég skil rétt þessa þarfagreiningu, sem við höfum lauslega farið yfir í efnahags- og viðskiptanefnd, þarf að vera þarna 21 sérfræðingur á samkeppnissviði, en þeir eru 11 í dag. Viðbótin sem ráðherrann ætlar að skila inn í stofnunina nægir því ekki til að hægt sé að fjölga starfsmönnum upp í 21 á samkeppnissviði eins og þarf að gera.

Hvers vegna fór ráðherrann út í þessar breytingar, hvert var meginmarkmið hennar og hvaða leiðir ætlar hún að fara að því markmiði? Það er fróðlegt að skoða það. Hæstv. ráðherra segir í greinargerð með frumvarpinu að einfalda þurfi stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála, fyrirkomulagið sé þunglamalegt og flókið og ekki hafi verið að finna sérstakan rökstuðning fyrir skipulaginu í lögskýringargögnum við setningu samkeppnislaga. Er eitthvað verið að einfalda skipulagið, virðulegi forseti? Nei, það verður ekki einfaldara. Í stað samkeppnisráðs kemur bara þessi þriggja manna stjórn, sem mjög líklegt er að verði pólitískt skipuð, a.m.k. hafa stjórnarflokkarnir öll tök á því.

Auðvitað er hægt að taka undir það að eðlilegt sé að færa frá Samkeppnisstofnun eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, gagnsæi markaðarins o.s.frv. og að neytendaverndin verði annars staðar, eins og ráðherrann ætlar sér, en við ræðum um það undir öðrum dagskrárlið hér á eftir. Hins vegar er líka verið að veikja verulega neytendaverndina vegna þess að stofnun embættis talsmanns neytenda verður afar veikt. Það embætti verður sömu annmörkum háð, eins það á að vera gagnvart forstöðumönnum Samkeppnisstofnunar. Talsmann neytenda vantar allt sjálfstæði til að hann geti skilað því verki sem ætlast er til af talsmönnum neytenda.

Ljóst er að það er langt í frá að hægt sé að sjá að verið sé að styrkja eftirlit með samkeppni eða að tryggja aukna neytendavernd með tillögum ráðherra. Þetta er allt saman yfirvarp hjá hæstv. ráðherra. Þar þarf ekki annað en að auka fjármagn og mannskap. Þetta er yfirvarp í þeim auðsæja tilgangi að breyta skipulaginu, m.a. til að auðvelda stjórnarflokkunum að hafa taumhald á stofnuninni, t.d. með því að hafa meira um það að segja að koma þeim fyrir í stjórninni sem þeim eru þóknanlegir.

Orðalagið er ákaflega furðulegt, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði að umræðuefni, að stjórnin væri sett inn til að gætt væri meðalhófs. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi gagnrýnt það alvarlega að forstöðumenn hafi ekki gætt meðalhófs í ákvörðunum sínum. Maður spyr hvort þau ákvæði sem nú á að taka upp, t.d. varðandi skipan stjórnarinnar, séu sett til höfuðs núverandi forstjóra og hvort verið sé að búa í haginn til að reka núverandi forstjóra.

Maður getur tekið fyrir ýmis ákvæði í þessu frumvarpi, t.d. í 6. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þá er lagt til að stjórn Samkeppniseftirlitsins ákveði starfskjör forstjóra hennar og er því litið svo á að forstjóri sé ekki embættismaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Síðan er kveðið á um að það sé verið að leggja niður Samkeppnisstofnun. Maður spyr hvort hæstv. ráðherra ætli að skáka í því skjóli að verið sé að leggja niður Samkeppnisstofnun og þar með starf núverandi forstjóra og henni sé því greiður vegur að ráða nýjan forstjóra eftir þessa breytingu.

Ég vil í lokin, af því að ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kemur í skýrslu þingnefndar sem gerði skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Nefndin leggur ekki til að settar verði neinar frekari skorður við því með hvaða hætti fyrirtæki geti átt samstarf eða hvernig eignatengsl þeirra eða samstarf eigenda megi vera háttað umfram það sem þegar er í lögunum, eða þær sem lagðar eru til í 2. kafla og snúa að yfirtökuskyldu.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra og vona hún hlýði á mál mitt, virðulegi forseti, hvort hún telji, sem hefur nokkuð verið rætt ... — Það er voðalega erfitt að ræða við ráðherrann þegar hún er alltaf að ræða við aðstoðarmenn sína í hliðarsölum. — Ég vil spyrja ráðherrann um það sem ég vísaði til og hvort hún telji ekki ástæðu til að setja ákvæði sem komi í veg fyrir að t.d. fjármálafyrirtæki geti til langframa staðið í fjárfestingum. Það er kannski eðlilegt að þau geti það um tíma til að koma á umbreytingum á fyrirtækjum sem þau bjarga frá gjaldþroti og þess háttar. En er ráðherra ekki reiðubúin að skoða hvort setja eigi þak á þann tíma sem t.d. fjármálastofnanir geti verið virkar í rekstri fyrirtækja? Ég tel að það þurfi að skoða. Ég spyr um álit hæstv. ráðherra á því í tengslum við það álit nefndarinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi að engin ástæða sé til að setja frekari ákvæði sem lúta að eignum og eignatengslum fyrirtækja.