131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:49]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að segja var það að gerðar eru hæfiskröfur til stjórnarmanna í samkeppniseftirlitinu samkvæmt frumvarpinu en hins vegar eru bara gerðar slíkar kröfur til formanns og varaformanns í samkeppnisráði eins og lögin eru í dag. Ekki eru nokkrar kröfur til annarra stjórnarmanna. Hv. þingmaður kaus að tala ekki mikið um það hverjir sætu í samkeppnisráði, en hún um það.

Það er fjarstæðukennt af hálfu þingmannsins að tala um að verið sé að veikja samkeppnislögin eins og hún kemur inn á í sambandi við meðför í Sjálfstæðisflokknum. Það á ekki við rök að styðjast en ég fer ekki yfir það frekar núna.

Það sem mér finnst aðalatriðið í sambandi við þetta mál er að vegna ástandsins í viðskiptalífinu skipa ég nefnd sem skilar niðurstöðum, skilar góðri skýrslu. Í framhaldi af því eru samin þau frumvörp sem hér eru komin fram. Það er augljóst að hv. þingmaður er að leita að einhverju, nál í heystakki, til þess að finna eitthvað til að setja út á.

(Forseti (SP): Forseti beinir því til hv. þingmanna að þeir virði ræðutíma. Hann er styttri í seinni ræðum þar sem það eru þrír hv. þingmenn sem óska eftir að veita andsvar.)