131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:55]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þau fjögur atriði sem hv. þingmaður nefndi eru öll til bóta og öll til skoðunar og að mínu mati öll vel ígrunduð. Kanna þarf hvort réttaráhrifum skuli ekki frestað og hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að sjálfsögðu að meta hvort skaðinn sé meiri eða minni fyrir hvorn aðilann sem er, atvinnulífið eða viðkomandi fyrirtæki.

Varðandi 1 milljarðinn, ég man eftir umræðu um þetta á sínum tíma að þetta var tekið sem 1/20 af hámarkinu í Danmörku. Að mínu mati er þetta allt of lágt, vegna þess að þetta er mjög hamlandi fyrir fyrirtæki til að sameinast því þau þurfa að fara í gegnum ákveðið ferli sem fælir starfsmenn frá og veldur mikilli óvissu. Ég mundi vilja skoða þetta og fá upplýsingar um það erlendis frá hver mörkin eru þar.