131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:06]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til samkeppnislaga. Það má segja að umræður hafi farið nokkuð um víðan völl hjá okkur í dag og það er kannski ekki óeðlilegt að miklar umræður skapist. Við verðum samt að gera okkur grein fyrir markmiðum lagasetningarinnar.

Mig langaði aðeins í byrjun til að fara örstutt í forsöguna. Eins og við vitum skipaði hæstv. viðskiptaráðherra nefnd fyrir um ári síðan um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem var m.a. ætlað að taka fyrir hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og hvernig ætti að þróa reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og traust.

Nefndin skilaði síðan af sér afar vandaðri skýrslu í fyrrahaust og þar má finna tillögur varðandi samkeppnismálin sem við erum að ræða hér. Með leyfi forseta segir m.a. í skýrslunni:

„Nefndin taldi æskilegra að fara svipaðar leiðir í samkeppnismálum og farnar hafa verið í nágrannalöndum okkar til að bregðast við vandamálum vegna fákeppni.“

Nefndin telur „nauðsynlegt að skerpa eftirlit með samkeppni á markaði, m.a. með því að gera skipulag samkeppnisyfirvalda skilvirkara og veita meira fjármagni til þeirra ...“

Skýrar samkeppnisreglur og skilvirkt eftirlit gera fyrirtækjum kleift að keppa á eðlilegum viðskiptalegum forsendum. Sú samkeppni er besta trygging viðskiptavina þeirra.“

Undir þessi sjónarmið tekur hæstv. viðskiptaráðherra og hefur því lagt fram þetta frumvarp.

Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um samkeppnismál og ekki síst eftir stórmál eins og t.d. olíumálið en í því unnu samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun gott starf. Það kemur auðvitað í ljós að almenningur vill hafa eftirlitsstofnanir virkar og vill að þær gæti hagsmuna okkar sem neytenda. Ég tel afar mikilvægt að vel takist til í slíkri löggjöf vegna þess að reglurnar þurfa að vera einfaldar, skilvirkar og njóta trausts.

Það er eðlilegt að slík löggjöf sé sífellt í endurskoðun. Við erum þó ekki hér að breyta efnisákvæðum samkeppnisreglnanna sem slíkra, heldur snúa breytingarnar að skipulagi Samkeppniseftirlits og viðbrögðum samkeppnisyfirvalda við tilteknum samkeppnisaðstæðum. Menn hafa í umræðunni í dag lagt þetta út á versta veg, þ.e. að það sé eitthvað mikið að núverandi samkeppnisyfirvöldum. Ég vil alls ekki líta á það þannig, heldur að við séum bara að horfa fram á við, við erum að þróast fram á við og dveljum ekkert við fortíðina, enda tel ég að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hafi staðið sig ágætlega, t.d. í olíumálinu eins og ég sagði áðan.

Hér eru helst lagðar til tvær breytingar á starfsemi samkeppnisyfirvalda. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skipulagi og stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda og í öðru lagi er lagt til að þau verkefni er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá samkeppnisyfirvöldum til stofnunar sem fer með neytendamál. Við munum ræða það atriði síðar. Meginmarkmiðið, eins og áður segir, er að einfalda stjórnsýsluna. Hæstv. viðskiptaráðherra fór ítarlega í þær breytingar áðan og er óþarfi að endurtaka það.

Við framsóknarmenn höfum nýlega haldið flokksþing okkar og þar var ályktað um íslenskt viðskiptaumhverfi. Mig langar að vitna í þær samþykktir, er lúta beint að þessu máli:

„Miklar breytingar hafa orðið á íslensku viðskiptaumhverfi á síðustu árum. Rekstrarumhverfi hér á landi er með því besta í alþjóðlegum samanburði og hefur það átt sinn þátt í útrás íslenskra fyrirtækja. Aukið frelsi til viðskipta en jafnframt öflugt eftirlit og lagaumhverfi sem byggir á evrópskum lagareglum hefur styrkt íslenskt viðskiptalíf. Áfram skal byggja á þeim grunni sem til staðar er og tryggja íslensku viðskiptalífi bestu mögulegu samkeppnisskilyrði. Jafnframt verði áfram lögð áhersla á öflugt eftirlit með viðskiptalífinu. …

Í ljósi breyttra tíma skal hlutverk eftirlitsstofnana eflt og úrræði þeirra styrkt. Í því sambandi skal þó tryggja gott samstarf við atvinnulífið og samtök innan þess. Mikilvægt er að íslenskt viðskiptaumhverfi sé í senn einfalt og skilvirkt og auðvelt að stofna fyrirtæki. ...

Fagnað er áherslum í frumvörpum viðskiptaráðherra í kjölfar skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Tillögur um öflugt samkeppniseftirlit eru nauðsynlegar í ljósi aukinnar samþjöppunar á mörkuðum. Auknar heimildir til handa samkeppnisyfirvöldum og aukning fjármuna eru skýr skilaboð stjórnvalda um áherslur á þessu sviði.“

Virðulegi forseti. Í umræðunni hafa komið fram, eins og ég sagði áðan, ýmis sjónarmið varðandi frumvarpið. Eðlilega munum við í framhaldinu fara yfir þau í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að lokinni 1. umr. Ég hef þá skoðun að við séum að stíga hér skref til að einfalda kerfið og jafnhliða styrkja það. Ég vona að þessar breytingar verði til þess að efla og treysta íslenskt viðskiptalíf neytendum til hagsbóta.