131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:15]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þær tillögur sem komu fram hjá nefndinni þá mig langar í upphafi að fjalla sérstaklega um húsleitarákvæðið sem hv. þingmaður kom inn á. Við vitum að sjálfsögðu að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og það var gagnrýnt töluvert í umsagnarferlinu en staðan í því máli er sú að á vegum forsætisráðherra starfar nefnd sem er að skoða samskipti lögreglu, samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins í refsiréttarlegu tilliti og það er alls ekki útilokað að ákvæðið verði tekið inn síðar. Ég held að við verðum að bíða og sjá hverju nefndin skilar af sér og ég bind vonir við það. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að þetta ákvæði er mjög umdeilt og menn hafa skiptar skoðanir á því.

Í skýrslu nefndarinnar koma fram atriði varðandi stjórnsýslu Samkeppniseftirlits og við erum að fylgja því eftir. Einnig koma fram í skýrslunni ákvæði varðandi Neytendastofu sem verður til umræðu síðar í dag og við erum einnig að fylgja því eftir.