131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:29]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í lok umræðunnar að hlaupa á því sem fram hefur komið í dag, en byrja á því að taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni þegar hann sagði að umræðan í dag hefði að mörgu leyti afhjúpað stjórnarflokkana. Það er kjarni málsins vegna þess að í umræðunni í dag hefur verið dregið fram að frumvarpið er hvorki fugl né fiskur og hæstv. viðskiptaráðherra skuldar þinginu skýringar á því af hverju verið er að hleypa upp þessari óvissu fyrir ekki nokkurn skapaðan hlut. Af hverju er verið að setja lagaframkvæmd í óvissu? Af hverju er verið að setja heila stofnun í óvissu? Af hverju er verið að setja starfsmenn í óvissu fyrir ekki neitt? Það eina sem verið er að gera er að veikja samkeppnislögin og að öllum líkindum veikja stofnunina vegna þess að uppskiptin á stofnuninni gera það að verkum að samlegðaráhrif, sem menn ella hafa með því að vera með fleiri starfsmenn, nýtast ekki. Það er því nánast sama hvar borið er niður, verið er að veikja samkeppniseftirlit í landinu og samkeppnislög sem tæki til að veita þetta aðhald.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þetta sé niðurstaðan eftir umræðu dagsins því að ég held að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem talaði hér fyrr í dag, hafi lýst því yfir að hann sé andvígur því að í gildi séu samkeppnislög og vill ekki slík lög. Hann hefur lýst því yfir að hann sé fylgjandi þeim breytingum sem nú er verið að gera því að það sé til bóta á kerfinu.

Hvernig túlka menn orð hv. þingmanns sem fyrir fram er andvígur samkeppnislögum, telur ekki ástæðu til að beita refsingum, að hv. þingmaður er fylgjandi þessum breytingum? Þetta undirstrikar það enn og aftur að þeir sem fagna núna eru þeir sem vilja lögmál frumskógarins, þeir sem ekki vilja aðhald og almennar leikreglur á þessum markaði. Það eru frjálshyggjumenn, últra hægri menn, eins og hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson, þó að hann hafi hér sagst ætla að styðja þetta mál þótt hann sé á móti samkeppnislögum. En það þarf svo sem ekki að koma á óvart að menn falli í þá gryfju að vera svona með og á móti sjálfum sér eftir því hvernig vindar blása. En þetta er bara veruleiki lífsins.

Þegar við horfum á þá þróun sem hefur átt sér stað á þessu frumvarpi fór það af stað með a.m.k. þremur atriðum sem hér má telja upp, sem eru hæfisskilyrði, húsleitarheimild og áfrýjunarheimild fyrir samkeppnisyfirvöld að fara með, þ.e. að fara með mál til dómstóla ef þau telja að hagsmunum almennings sé ekki nægilega borgið eftir niðurstöðu áfrýjunarnefndar, þannig að bæði sá sem er sakhæfur og samkeppnisyfirvöld hafi þessa heimild.

Eftir að olíumálið kom upp hafa öll þessi atriði horfið. Það eru svona atriði eins og ég nefndi áðan, þ.e. tilgangsleysið með frumvarpinu sem er algert, sem kallar fram tortryggni, það gerir það. Þetta kallar fram tortryggni gagnvart því hvað menn eru hér raunverulega að fara.

Ég held að ástæða sé til á þessum tímapunkti að rifja aðeins upp ummæli fyrrverandi borgarstjóra, Þórólfs Árnasonar, þegar hann var spurður í viðtali hvers vegna hann hefði ekki sagt af sér fyrr en hann gerði og ætla ég að vitna í ummælin en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Sú spurning horfir öðruvísi við þegar horft er til baka heldur en þegar maður er á bólakafi í vinnunni sjálfur. Að hluta verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“

„Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur“ — sagði fyrrverandi borgarstjóri — „ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“ (Gripið fram í: Þetta er bara rétt.) Þetta eru stór orð. Þar er hann að rifja upp hvers vegna hann hafi tekið þátt í þessu. Þetta er heiðarlega mælt. Kannski er þetta sá veruleiki sem við horfum framan í eftir umræðu dagsins að það er engin skýring á því af hverju er farið af stað með þessar breytingar sem gera ekkert gagn fyrir samkeppniseftirlitið, gera ekkert gagn fyrir samkeppnislögin nema veikja þau. Þau skapa mikla óvissu hjá starfsmönnum. Og til hvers er þá hlaupið? Því að þeir einustu sem fagna eru þeir sem engar reglur vilja hafa og trúa því að markaðurinn leiðrétti sig sjálfur.

Ég ætla að leyfa mér að virða þau sjónarmið og trúi því að þau séu sett fram í góðri meiningu, en það kemur náttúrlega mjög á óvart að t.d. Framsóknarflokkurinn sem hefur nú aldrei gefið sig út fyrir að lögmál frumskógarins eigi að gilda skuli ganga að þessu. Þess vegna vantar allar skýringar á þessu. Af hverju er verið að hleypa málum upp í loft fyrir ekki neitt?

Ég ætla að gera það að tillögu minni, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra dragi frumvarpið til baka, leggi þessar 60 milljónir í Samkeppnisstofnun og við förum betur yfir það á hvern hátt megi tryggja eftirlit, hvernig megi treysta og bæta samkeppniseftirlit og samkeppnisreglur í landinu. Ég held að það sé miklu skynsamlegra en að fara af stað á þennan hátt sem hér er gert, að hleypa öllu í uppnám án þess að nokkur skýring hafi komið fram á því hvernig á þessu stendur.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur umræðan í dag fyrst og síðast afhjúpað stjórnarflokkana og kannski afhjúpað þá stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í stjórnarsamstarfinu, því að auðvitað eru þeir glaðir. Þeir telja sig hafa náð því fram sem þeir vildu ná fram. En Framsóknarflokkurinn á hinn bóginn kyngir því einu sem að honum er rétt. Ég sé að hæstv. viðskiptaráðherra kinkar kolli og væntanlega samþykkir þá þessi orð.

Menn hafa í umræðunni ítrekað spurt hæstv. ráðherra: Hvað gerir það að verkum að sett er pólitískt herráð fyrir forstjóra Samkeppniseftirlitsins? Hvernig gerir það þetta minna pólitískt en áður? Menn hafa spurt: Hefur hæstv. viðskiptaráðherra verið að skipta sér þannig af Samkeppnisstofnun að nauðsyn sé á að setja einhvern varnarmúr fyrir ráðherrann? Eða er það kannski það sem hæstv. ráðherra hefur gjammað hér fram í í vandræðum sínum þar sem hæstv. ráðherra hefur sagt: Það kemur kannski annar ráðherra á eftir mér sem hugsanlega kann að fara að skipta sér af þessu? Það hafa verið rökin fyrir þessu.

Nei, virðulegi forseti, það stendur ekki steinn yfir steini í því sem lagt var upp með, þ.e. að veitast að hringamyndun og misnotkun á markaðsráðandi stöðu í íslensku viðskiptalífi. Það var uppleggið. Þegar maður skoðar líka tillögurnar sem komu úr nefndinni þá er einungis ein tillaga sem farið er eftir, þ.e. að skipta Samkeppniseftirlitinu upp, af þeim tillögum sem dregnar eru saman.

Virðulegi forseti. Hér er um grundvallarlöggjöf að ræða og það er ekki við hæfi að um hana sé gengið eins og hér hefur verið gert af hálfu hæstv. ráðherra í dag og sú framsaga sem hæstv. ráðherra flutti er þess eðlis að hún mun ekki nýtast nokkrum einasta manni í því að reyna að skýra hvert hæstv. ráðherra er að fara. Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki skýrt það: Hvað er það sem kallar á meðalhóf í aðgerðum Samkeppnisstofnunar? Virðulegur forseti, hvar liggur óhófið?