131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:43]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Lúðvík Bergvinsson hefur greinilega skilið ræðu mína jafnilla og hann skilur frumvarpið. En það sem ég benti á var að ákvörðun í samkeppnismálum er í dag í höndum samkeppnisráðs, sem er ráðherraskipað.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ég held að ráðherra hafi ekki verið með nein pólitísk afskipti af störfum þess ráðs. Ég hef ekki áhyggjur af því að (Gripið fram í.) það verði í framtíðinni og ég hef ekki heldur áhyggjur af því að ráðherra verði með pólitísk áhrif á störf stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi, sem hefur farið dálítið forgörðum í þessari umræðu, er tilgangurinn með þessari breytingu, sem er m.a. að einfalda skipulagið. Í dag ber samkeppnisráð ábyrgð á ákvörðunum í samkeppnismálum. Samkeppnisstofnun vinnur málin, leggur þau upp í hendur á samkeppnisráði og tekur síðan ákvörðun. Síðan er áfrýjunarleið eins og menn þekkja.

Það sem breytist núna, ef frumvarpið nær fram að ganga, er að stofnunin sem slík eða forstjóri hennar tekur ákvarðanir sem síðan er hægt að áfrýja eða kæra. Með því er í raun tekinn út einn liður í málsmeðferðarkeðjunni, vonandi með það að markmiði, að því er stefnt með frumvarpinu, að stytta þann tíma sem það tekur málið að fara í gegnum kerfið, vonandi til að gera kerfið skilvirkara. Það er kannski kjarni málsins, sem hefur allt of lítið verið til umræðu í dag, að auðvitað er markmiðið með frumvarpinu — þvert ofan í það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson heldur fram — að gera stjórnsýsluna og eftirlitið á þessu sviði markvissara og skilvirkara en verið hefur.