131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:43]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er rétt að segja það strax að á Norðurlöndum er þessu þannig varið að í Svíþjóð og Finnlandi er umboðsmaður neytenda jafnframt forstjóri einskonar neytendastofu. Í Noregi og Danmörku er það ekki svo. Þar er umboðsmaðurinn sjálfstæður. Í Danmörku nýtur hann fulls sjálfstæðis en nýtur að auki aðstoðar eins konar neytendastofu þar í landi. Þegar hæstv. ráðherra segir að þetta sé meira og minna sami maðurinn hér og í Danmörku, sá sem hún vill láta setja hingað inn, þá er það ekki rétt. Það er byggt á einhverjum misskilningi, vonandi, hjá ráðherranum. Hann hefur sitt eigið starfslið. Hann hefur sinn eigin fjárhag. En hann getur í stórum málum þegar mikið liggur við notið aðstoðar starfsmanna neytendastofu sem er er auðvitað ekki óeðlilegt.

Þegar t.d. hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir mælti fyrir frumvarpi sínu og fleiri samfylkingarmanna um talsmann neytenda fyrr í vetur sagði hún að vel kæmi til greina að vista embætti af þessu tagi með opinberum stofnunum en einnig frjálsum félagasamtökum. Það getur vel farið saman og slík vistun gæti verið þannig að báðir aðilar hefðu gagn af.

Enn fremur er um umboðsmanninn í Danmörku að segja, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði frá og kom hingað í haust leið að ég held, að hann hefur m.a. rétt til þess að höfða mál og eru þess vegna sett slík starfsskilyrði. Það er ekki hér þannig að samanburður hæstv. ráðherra, sem nú er gengin úr salnum og farin að tala í símann, við ástandið í öðrum norrænum ríkjum er því miður út í hött.

Málið hefur auðvitað verið rakið af fyrri ræðumönnum, m.a. af hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir hönd okkar samfylkingarmanna og var vel gert. Hins vegar var spurningum auðvitað misjafnlega svarað þannig að ég hlýt að spyrja nokkurra þeirra aftur.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er skynsamlegt að skilja neytendaþáttinn í Samkeppnisstofnun frá og fara með hann annað. Það er ekki endilega samræmi á milli sjónarmiða samkeppniseftirlits og hagsmuna neytenda og þegar þetta tvennt fer saman í sama embættinu er hætt við, eins og hér hefur reyndar gerst, að málefni neytenda verði út undan, sérstaklega þegar stofnunin stendur í slíkum stórræðum í þessu undarlega hagkerfi og samfélagi okkar sem raunin hefur verið undanfarin ár, og ég þakka henni í leiðinni fyrir það.

Hins vegar að taka embætti sem er frekar vandræðalega hannað og fyrir komið, Löggildingarstofu, og gera þá stofu að Neytendastofu með því að slá neytendaþættinum úr Samkeppnisstofnun saman við hana er ákaflega furðuleg pólitík og undarleg stjórnsýsla. Þar með eru komin mál undir sama hatt sem eiga nánast ekkert sameiginlegt. Kannski er það til þess, og ég verð að spyrja ráðherra að því, að leysa einhver persónuleg embættisvandamál sem hæstv. ráðherra á við að glíma eða glíma þarf við í ráðuneytinu, því að aðrar skýringar eru ekki fyrir hendi á því hvers vegna verkefnum Löggildingarstofu er fleygt saman við neytendamálin. Það er ákaflega undarlegt.

Það er fernt, eins og áður hefur verið tekið fram, sem er að þeim talsmanni neytenda sem hér er lagður til. Og þá vil ég gera ágreining við samflokksmann minn og afar háttvirtan þingmann af minni hálfu, Þórunni Sveinbjarnardóttur. Þó að ég hafi flutt með henni frumvarp um þetta efni tel ég miklu heppilegra að maðurinn heiti umboðsmaður en talsmaður. Það sést strax á því að engum dytti í hug að búa til embætti talsmanns launamanna, því að þeir talsmenn eru auðvitað til. Einn af þeim var áðan í ræðustólnum, annar heitir Grétar Þorsteinsson og fleiri og fleiri eru slíkir til — eða talsmanns atvinnurekenda eða atvinnulífsins, eins og atvinnurekendur eru farnir að kalla sig núna, það þætti alveg fáránlegt ef það væri opinbert embætti. Umboðsmaður er því auðvitað orðið sem við ættum að nota í þessu.

En hvað sem við köllum hann þarf hinn opinberi málsvari neytenda að njóta fulls sjálfstæðis. Það gerist ekki með frumvarpinu þar sem honum virðist komið fyrir eins og hverjum öðrum hreppsómaga á skrifstofu hjá Löggildingarstofunni, sem reyndar fær nýtt nafn. Hann virðist eiga að vera einhvers konar kontóristi hjá Löggildingarstofunni og er ekki skýrt hér hvort boðvald yfirmanns Löggildingarstofunnar nær til talsmanns neytenda. Ráðherra getur kannski svarað því.

Það er alveg ljóst, og það er annað atriðið, að maður af þessu tagi verður að hafa sjálfstæðan fjárhag, hann verður að geta skipulagt fjárhagsáætlun sína, það er hann sem á að skipta eftir atvikum við ráðuneyti og Alþingi um það hvaða fjárhag hann hefur. Því er ekki til að dreifa hér, a.m.k. hefur hæstv. ráðherra ekki skýrt það út, því að fjárhagur málsvarans virðist vera sameiginlegur við Löggildingarstofuna hina nýju.

Málsvari af þessu tagi verður auðvitað líka að hafa mannaforráð. Hann verður að geta annast stefnumótun fyrir sig og sitt embætti og hann verður að hafa fulla verkstjórn á sínu sviði, en það er ekki hér því að kontóristinn á Löggildingarstofunni á að þurfa að fara til löggildingarforstjórans og sníkja af honum menn eins og þarf hverju sinni og jafnvel þann frummannskap sem felst í ritarastörfum og í ýmsum þeim einföldu verkefnum sem þarf að vinna á skrifstofunni á hann að sækja undir löggildingarforstjórann. Hvað þá ef málsvarinn ætlar að ráðast í stór verkefni, þá þarf hann að semja um það við löggildingarforstjórann þannig að löggildingarforstjórinn hefur það kverkatak á málsvaranum sem honum sýnist. Þetta eru ákaflega furðuleg vinnubrögð hjá hæstv. ráðherra að láta sér detta þetta í hug og ég vona bara að hún hafi ekki látið sér detta þetta í hug, er reyndar nokkuð viss um að það var ekki þannig — en að taka við því frá misvitrum embættismönnum eða hverjir það eru nú sem hafa lætt þessari flugu í koll ráðherranum.

Í fjórða lagi þarf málsvari neytenda af þessu tagi að hafa rétt til þess, eins og danski umboðsmaðurinn hefur, að höfða mál. Hann þarf að hafa viðurkennda lögfræðimenntun, þarf að vera lögmaður, og hann þarf helst, eins og menn af þessu tagi, að hafa hæfi dómara. Hefur þessi það? Nei, hann hefur það ekki. Hann á hins vegar að hafa háskólapróf. Þá spyr ég eins og síðasti hv. þingmaður: Á það að vera í kjarnorkueðlisfræði, á það að vera í forngrísku? Ja, það má vera í hverju sem er. Það er svo fráleitt að hafa þetta svona að þetta er eins og hver annar hortittur sem stendur út úr frumvarpinu.

Ef frumvarpið yrði samþykkt gæti sá sem hér talar þess vegna orðið talsmaður neytenda vegna þess að ég hef auðvitað kynnt mér þessi mál nokkuð og uppfylli því það ákvæði, en ekki sá hæstv. ráðherra sem mælir fyrir frumvarpinu þó að, ef allt væri eðlilegt, hæstv. ráðherra ætti að vera svona fimm sinnum hæfari en sá sem hér stendur. En ef við reyndum tvö að sækja um embættið mundi ég, ungur og óreyndur sem ég er, vera tekinn fram yfir ráðherrann vegna þessarar vitleysu um háskólapróf. (Gripið fram í.) Hinn þroskaða og reynda ráðherra, sagði ég.

Reyndin er sú að það eiga að vera starfsskilyrði og þau eiga að felast í lögfræðinni, þau eiga að felast í lögmennskunni, hæfileikanum og réttinum til að höfða mál.

Svo má spyrja að því, og ég vona að ef hæstv. ráðherra svarar því ekki verði farið yfir það í nefndinni, hvort einhver munur sé á þeim tveimur mönnum sem um er að ræða. Annar er — nú er ráðherra aftur farin í símann og eru tíð samskipti hennar við einhverja menn utan þingsins, forseti góður — annar þeirra er hinn frægi talsmaður neytenda, hann skal hafa háskólapróf stendur hér. Hinn er löggildingarforstjórinn, yfirmaður talsmanns neytenda, en hann skal hafa menntun á háskólastigi. Hvaða munur er á þessu? Hvað þýðir þessi munur? Er þetta bara vegna þess að menn hafa samið frumvarpið grein fyrir grein og ekki er í þeim neitt samhengi eða er einhver efnisleg meining með þessu hjá flutningsmanni frumvarpsins, hæstv. ráðherra? Þetta er það sem maður rekur sig á í frumvarpinu og gerir það ekki traustlegra en jafnvel var talið.

Það eru líka ýmsar spurningar sem mér finnst ekki hafa verið svarað af hálfu ráðherrans sem ég vil endurtaka úr máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, t.d. það hvað þýðir að talsmaður neytenda eigi ekki að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara? Hver skilgreinir þá leynd? Er það talsmaðurinn, löggildingarforstjórinn eða ráðherrann sem gerir það? Er leyndin í 9. gr. sama leyndin og talin er upp í 2. mgr. 8. gr. þar sem fjallað er um öryggi ríkisins og utanríkismál „sem leynt skulu fara“, sama orðalagið? Eru það bara þau eða er það eitthvað annað? Þetta kann að sýnast lítið mál en það er eins og hér sé fiskur undir hverjum greinarsteini í frumvarpinu, annað getur maður ekki ályktað eða þá að það sé svo illa samið að ekki er hægt að lesa úr því af neinu viti.

Tvennt í viðbót. Annað er það að hlutverk talsmanns neytenda felst í því, með leyfi forseta að „taka við erindum neytenda“. Hvers konar erindum? Hvaða erindi eru það? Upplýst hefur verið að það séu ekki þau erindi sem nú berast kvörtunar- og leiðbeiningaþjónustu Neytendasamtakanna, sem þau reka fyrir samfélagið og í samvinnu við ríkisvaldið, samvinnu sem er þannig að þetta kostar u.þ.b. 26 millj. kr. á ári en ríkisvaldið leggur þar af til tæpan þriðjung, 8,5 millj. held ég að það sé, og má þó þakka hæstv. ráðherra fyrir að sú upphæð hefur hækkað í tíð hennar, bæði að krónutölu og að hlutfalli. Í raun ætti ríkið að launa alla kvörtunar- og leiðbeiningaþjónustu Neytendasamtakanna því að hið almenna hlutverk hins opinbera er að sjá um þessa kvörtunar- og leiðbeiningaþjónustu.

Hvað um það. Ráðherra upplýsir að það séu ekki slík erindi sem þessi nýi talsmaður, undirmaður löggildingarforstjórans, á að taka við. Hvaða erindi eru það þá? Á hann kannski bara að gera ekki neitt þessi maður, nema mæta í vinnuna og sitja og brosa og bukka sig fyrir löggildingarforstjóranum og yfirmönnum hans?

Hitt er sérkennilegt að í 10. gr. er talað um, með leyfi forseta:

„Álitum talsmanns neytenda ... verður ekki skotið til annars stjórnvalds.“

Hvaða álit eru það? Þarna stóð áður í frumvarpsdrögunum „ákvörðunum“. En ákvarðanirnar virðast engar vera heldur aðeins álit og þeim verður ekki skotið til annars stjórnvalds. Heyr örlygi, hér er djarflega tekið á í lögum vegna þess að ef einn maður hefur álit má ekki skjóta því til annars. Það er ágætt, en er það ekki þannig að ef einn maður hefur álit er það álit hans og einskis annars, þannig að því verður ekki skotið neitt annað — nema þá að maðurinn sé beygður og sveigður til að láta af áliti sínu? Ég skil þetta ekki og eina skýring mín er sú að þetta séu hugsanlega leifar úr elstu gerð frumvarpsins sem hafi þá verið alvörufrumvarp og gert ráð fyrir einhverjum ákvörðunum sem talsmaður neytenda gæti tekið upp á eigin spýtur, ákvarðanir sem hann gæti þá fylgt eftir. Eða er kannski átt við að álitin í 10. gr. séu þau sömu og í 6. gr. c þar sem talsmaðurinn, undirmaður löggildingarforstjórans, á að gefa út rökstuddar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur? En það að semja álitsgerð og að hún sé til með tillögu um úrbætur er ekki það sama og að þær úrbætur verði framkvæmdar og þýðir ekki að nokkur maður taki mark á álitsgerðinni eða a.m.k. ekki það mark að hann sé nauðbeygður til þess að fara eftir henni vegna þess að talsmaðurinn hefur ekkert vald. Hann getur gefið út álitsgerð, hann getur sagt álit sitt en síðan gengur það ekkert lengra.

Þá virðist seinni málsgreinin í 10. gr. enn þá vera algjör hortittur ef álit er sama og álitsgerð, því að auðvitað verður álitsgerð ekki skotið til annars stjórnvalds heldur. Eða ímyndaði sér einhver að það væri ein álitsgerð sem lýsti áliti manns á einhverju ásamt tillögu um úrbætur og svo kæmi eitthvert annað stjórnvald og afnæmi þá álitsgerð? Það er jafnfáránlegt og að einhver geti breytt áliti annars, því áliti sem þegar er fram komið og staðfest er. Ég skil þetta því ekki. Vera kann að hæstv. ráðherra finnist þetta hártogun af minni hálfu, en ég er nú bara einfaldur hvítur karlmaður um fimmtugt sem lærði að lesa í gamla daga og ég er bara að lesa, það er ekkert annað sem ég er að gera.

Það leitar á mann hvernig á því stendur að úr því verið var að búa til þessa Neytendastofu — sem við fyrstu sýn virðist mjög jákvætt og ég vona að það rætist úr henni og þetta verði í raun fyrsta skrefið með öllum þeim lagfæringum sem nefndin þarf að gera á frumvarpinu — að talsmaður neytenda eða umboðsmaður var þá ekki gerður að forstjóra Neytendastofu, vegna þess að það er málið í Svíþjóð og Finnlandi, sem er helmingurinn af því norræna landsvæði sem við berum okkur svo oft saman við og sem hæstv. ráðherra segir að sé fyrirmynd frumvarpsins, sem sé hinn danski hluti þess, sem að vísu hefur verið sýnt fram á að er misskilningur hjá ráðherranum. En það finnst mér koma til greina til að skapa sættir um þetta og reyna að gera þetta almennilega, vegna þess að við erum að vinna hérna mjög mikilvægt verk í þágu neytenda og í þágu atvinnulífsins, að gera hann þá að forstjóra Neytendastofunnar, slá saman þessum talsmanni og löggildingarforstjóranum þannig að þetta verði þá alvöru neytendastofnun og forstjóri hennar hefði þau völd, það sjálfstæði, þann mannafla og þann fjárhag sem þarf til þess að þetta verði af einhverju viti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að lokum hvort hún líti á þetta sem einhvers konar skipulag til bráðabirgða. Er það þannig að ef þessi persónulegu embættisvandamál leysast nú í stofnunum viðskiptaráðuneytisins þá sé ráðherrann tilbúin að færa það í betra horf en það er núna? Af því að þetta frumvarp er í raun og veru hálfgerður umskiptingur eða bastarður eins og það er núna og þetta embætti eins og um það er vélað í frumvarpinu. Eða telur hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra, sem einnig er ráðherra neytendamála, að þetta frumvarp sé til frambúðar, að þetta eigi bara að vera svona? Að hér sé komin sú mikla lausn sem gæti orðið 11. boðorðið í Mósebókunum, að hinn frábæri talsmaður neytenda sé skrifstofumaður hjá forstjóra Löggildingarstofu, að hann hafi ekki einu sinni ritara nema að leita til þessa forstjóra, að hann hafi ekki fjárhag, hann sé í raun og veru ekki persóna í kerfinu heldur undirmaður? Það er ákaflega undarlegt nema þá að þetta séu í raun og veru svona fegrunaraðgerð, þetta sé einhvers konar lýtalækningar „light“ og þessum manni sé í raun ekki ætlað neitt hlutverk nema það að koma fyrir í tveimur setningum í þeirri afrekaskrá sem Framsóknarflokkurinn gefur út fyrir kosningarnar 2007.