131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:35]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Mér finnst æðiundarlegt ef einn þingflokkur, Frjálslyndi flokkurinn, fær ekki að koma að fyrirspurn. Mér finnst það algjörlega óþolandi, sérstaklega í ljósi þess að fyrirspurnir til ráðherra eru mjög mikilvægar til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Hér koma samflokksmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins og spyrja hann út úr og gefa honum sviðið. Í rauninni er þetta mjög mikilvægur vettvangur til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og þetta er ekki í fyrsta skipti sem okkur í Frjálslynda flokknum er misboðið af hæstv. forseta.

Á eftir erum við að fara að ræða hér sama mál og var rætt í síðustu viku, þ.e. varðandi skipasmíðastöðina á Akureyri, og það er alveg furðulegt að á sama tíma eru mál stjórnarandstöðunnar látin dragast úr hömlu, fá ekki umræðu, og jafnvel hafa sumir stjórnarþingmenn komið í veg fyrir að ákveðin mál yrðu tekin á dagskrá.

Í öðru lagi hefur maður orðið vitni að því að hæstv. utanríkisráðherra hefur dregið að svara fyrirspurnum svo mánuðum skiptir. Ég held að hún sé orðin fjögurra mánaða, fyrirspurn um kostnað til framboðs í öryggisráðið. Þetta er auðvitað óþolandi og ég tel að hæstv. forseti verði að gefa einhverja skýringu á þessu, á störfum þingsins.

Utandagskrárumræða um skattamál hefur verið sett til hliðar. Það var beðið um utandagskrárumræðu um að skattfé landsbyggðarinnar rynni í stærri mæli til höfuðborgarsvæðisins og væri notað þar. Hún var sett til hliðar. Síðan fer hv. þm. Birkir Jónsson að ræða á ný sama mál og var í síðustu viku. Það er eitthvað að forgangsröðun þingsins þegar farið er fram með þessum hætti.

Fyrirspurnin sem ég ætlaði að beina hér til hæstv. viðskiptaráðherra er mikilsvert mál, mál sem varðar lífeyrissjóðina í landinu.

(Forseti (HBl): Hv. þingmaður beinir ekki fyrirspurn til viðskiptaráðherra nú.)

Nei, en ég var að útskýra hvað átti að ræða hér. Ég vona að hæstv. forseti þingsins virði málfrelsi mitt hér. Fyrirspurnin sem ég ætlaði að beina til viðskiptaráðherra varðaði lífeyrissjóðina í landinu. Hún er ekki tekin á dagskrá en mál eru tekin á dagskrá þar sem í rauninni er verið að þjónka fjármálaráðherra og gefa honum sviðið til að skíta út R-listann í Reykjavíkurborg. Ég hélt að sá maður hefði frekari tækifæri til þess en að standa hér í fyrirspurnatíma þingsins. Mér finnst þetta mjög undarlegt og ég tel þessa framkomu forseta þingsins við að stjórna þingfundum mjög ámælisverða.