131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Skráning nafna í þjóðskrá.

204. mál
[14:01]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég flutti þingsályktunartillögu á þessu þingi sem varðar það að taka á að skrá löngu nöfnin í þjóðskrá. Þingmenn úr þremur flokkum lýstu stuðningi við málið enda er það sjálfsagt réttlætismál sem ber að taka á. Það vakti sérstaka athygli mína þegar ég fór yfir það hverjir hefðu sent inn erindi varðandi það þingmál sem liggur hjá hv. menntamálanefnd að umsögn vantar einmitt frá Hagstofu Íslands. Það væri mjög ágætt ef hæstv. hagstofuráðherra gæti ýtt á eftir þeim að senda inn umsögn um þingmálið sem liggur þegar fyrir þinginu.