131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:00]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er verið að ræða, stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010, má í sjálfu sér fagna með þeim orðum að betra sé seint en aldrei. Ég get tekið undir öll markmiðin sem sett eru í þessari áætlun, enda hef ég á umliðnum þingum oft tekið til umræðu hér á hinu háa Alþingi, bæði í fyrirspurnum og ræðum, ýmislegt sem hér er sett fram sem markmiðslýsing núna á vordögum árið 2005.

Ég sagði: Betra er seint en aldrei. Þessi tillaga er þá kannski líka um leið staðfesting á því metnaðarleysi hæstv. ríkisstjórnar sem hefur verið í þessum málum undanfarin ár. Á ég þá sérstaklega við háhraðatengingar til minni byggðarlaga sem setið hafa eftir í þessari samkeppni og farsímavæðingu GSM-kerfisins á helstu þjóðvegum landsins. Þetta er sannarlega, virðulegi forseti, staðfesting á því að það sem m.a. ég og aðrir hv. þingmenn úr stjórnarandstöðu höfum oft tekið til umræðu á hinu háa Alþingi hefur verið rétt og er staðfest í þessari áætlun. Hún er viljayfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar í þessum málaflokki sem, eins og ég segi, er góð svo langt sem hún nær. Hér þarf að sjálfsögðu að koma dálítið kjöt á þessi bein með peningum sem settir verða í málaflokkinn, þ.e. eins og kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra, að myndaður verði sjóður við sölu Símans sem verði tekinn frá í þennan málaflokk og þá þingsályktun sem ráðherra hefur hér fylgt úr hlaði.

Það er ákaflega mikilvægt að það sé gert á þann hátt og það verði þannig sýnilegt, komi fram í nefndaráliti samgöngunefndar og komi inn í tillöguna áður en hún verður samþykkt. Hún er ekki nægjanleg, virðulegi forseti, sú markmiðslýsing sem hér er um að þetta fari eftir fjárlögum hvert og eitt ár og í samráði við viðkomandi ráðherra í viðkomandi málaflokkum. Engan veginn verður hægt að gera þetta á þennan hátt.

Ég sagði áðan að betra væri seint en aldrei. Auðvitað hefði verið mjög smart ef þessi áætlun hefði náð frá árinu 2000 eða 2001 til 2010, eða jafnvel 2006. En það er sannarlega mikil framþróun á þessum markaði og í þessari tækni, samanber það að þegar við samþykktum alþjónustukvöðina með ISDN-sambandið var það orðið úrelt kerfi nokkrum missirum síðar. Ég legg því höfuðáherslu á, virðulegi forseti, um leið og ég fagna þessari tillögu og lýsi yfir stuðningi við hana, með þeim eðlilegu fyrirvörum sem gert er, að peningar verði sýnilegir, settir í sjóð sem tekið verði fram að sé sérstaklega í þetta verkefni og veitt verði fé úr. Áðan kom fram hjá hæstv. ráðherra að það kostaði um 1.050 milljónir það fyrsta, þ.e. að GSM-væða þjóðvegi landsins, ef svo má að orði komast, og 150 milljónir stafrænar sendingar um gervihnött til sjófarenda og annarra. Það er auðvitað hneisa að það skuli vera að gerast 2005, 2006 eða 2007, og átti náttúrlega að vera komið fyrir lifandi löngu.

Hér er tekið upp hið fagra nafn samþjónusta sem á að gera okkur kleift að veita fé til að bjóða t.d. út uppsetningu senda við þjóðvegakerfið. Símafyrirtækin geta þá boðið í og aðrir fengið samning í því í gegnum reiki en þá verður það að gerast sem allra fyrst og með þeim peningum sem þarna verða teknir frá en ekki þannig að þegar hið háa Alþingi er að basla við að koma saman fjárlögum á lokadögum þings fyrir jól geti þetta dottið upp fyrir eða verði þannig að ekki verði veitt fé í samþjónustuna. Þessi sjóður verður að vera til, það verður að skilgreina hann og það verður að koma fram að mínu mati í nefndaráliti samgöngunefndar. Til að mynda breiða samstöðu um þetta mál þarf að mínu mati peningahliðin að koma fram í þessu máli.

Þetta vildi ég segja aðeins um þetta en um samþjónustuna ætla ég að segja það sem kemur hér fram að menn eru að finna upp aðferð til að fara í raun og veru lengra en alþjónustukvöðin segir til um. Menn eru að finna leið til þess að Evrópusambandið komi ekki með tilskipunum sínum og eftirlitsstofnunum í bakið á okkur við þær aðferðir sem við erum hér að tala um. Það er með öðrum orðum verið að nota hér aðferð sem er vel þekkt úti um allan heim og kannski sérstaklega á því svæði sem við berum okkur saman við, Evrópu, að bjóða út hluti og athuga hvað fyrirtæki setja upp fyrir að veita ákveðna þjónustu. Í þessu sambandi nefni ég t.d. styrki í áætlunarflug til nokkurra minni staða. Auðvitað sakna ég þess, og vil koma því að enn einu sinni, að hæstv. samgönguráðherra skuli ekki beita sér fyrir sams konar leið gagnvart strandsiglingum. Það eigum við þó vonandi eftir að ræða síðar.

Vegna þess sem liggur fyrir í þessari áætlun spyr ég hæstv. samgönguráðherra einnar spurningar. Hvað á að gera við litlu byggðarlögin þar sem menn eru óþolinmóðir og sætta sig ekki við að sitja í annars flokks tengisambandi gagnvart netinu? Hef ég oft tekið Hrísey sem dæmi. Íbúar þar fóru eigin leið og fjármögnuðu það sjálfir fyrir 2–2,5 millj. kr. að koma sér í háhraðatengingu. Nú á að fara þá leið gagnvart öðrum minni stöðum að bjóða tenginguna út og veita fé í hana. Hvernig á að koma til móts við þá íbúa litlu byggðarlaganna sem sjálfir hafa lagt út peninga, mikla peninga per íbúa, til að tengjast háhraðatengingum eins og gert hefur verið hingað til? Ríkisvaldið var ekki komið fram með svona áætlun eða peninga í þetta sem hér á að gera fyrir nokkrum árum, við getum sagt 2000–2001.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum hvað varðar þessa þingsályktunartillögu, það er stuttur tími við 1. umr. Ég fagna því að geta unnið með þetta mál í samgöngunefnd og vil lýsa því yfir að ég er ánægður með það sem hér kemur fram en ítreka það sem ég sagði, um leið og hæstv. samgönguráðherra gengur í salinn: Hér þarf að fylgja (Forseti hringir.) kjötið með, peningahliðin þarf að vera klár.