131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:50]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er meistari útúrsnúninganna. Þegar ég segi að þetta sé mín pólitíska ákvörðun sem ég hef stuðning við þá er hann fljótur að slá því upp og segja: „Pólitísk en ekki fagleg ákvörðun.“ Þetta er sem sé pólitísk ákvörðun sem er byggð á faglegum rökum margra sem yfir málið hafa farið. Ég hef af fullri ábyrgð leitað álits margra fleiri en hér eru tilgreindir. Ég hef leitað í smiðju þeirra og rætt þessi mál við aðila sem þekkja vel til á peningamarkaði og kunna með þessi mál að fara, fyrrum starfsmanna og til bændanna og peningamanna sem sjá framtíðina. Þetta er sem sé fagleg niðurstaða en pólitísk ákvörðun. Ég vil hafa það alveg skýrt að við höfum legið yfir þessu og lagt í þetta mikla vinnu til að undirbúa það.

Við teljum líka mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að þetta mál gangi dálítið hratt fyrir sig því peningastofnun sem ákveðið er að selja eða breyta er viðkvæm. Hún er eins og egg. Hún getur brotnað í þeim meðförum. Hún er mikið verðmæti í dag. Þess vegna þurfa öll svona mál og allar svona breytingar að ganga hratt fyrir sig.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að lífeyrissjóðurinn er veikur en sem betur fer lifa bændur langa ævi. Staðreyndin er sú að við 70 ára aldur eiga þeir tíu árum lengri lífslíkur samkvæmt rannsóknum en aðrir Íslendingar og stafar það sjálfsagt af þeirri hollu fæðu og miklu hreyfingu og lífsgleði sem hefur einkennt þeirra störf. En sú er staða sjóðsins að hún er veik og ég tel mikilvægt að semja um að styrkja (Forseti hringir.) sjóðinn sem allra mest við þessar breytingar.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu.