131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:26]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að tekist hafi að breyta íslenskunni á þessum tveim árum en fyrir mér eru þetta enn þá óhefðbundnar lækningar og hefðbundnar lækningar. Annars vegar byggja þær á raunvísindum og hins vegar ekki á raunvísindum. Í fyrra fallinu byggja þær á tilraunum sem gerðar eru, lyfja-, læknis-, sálfræðitilraunum o.s.frv., og hins vegar byggja þær ekki á tilraunum sem hægt er að endurtaka. Ef svo væri væru þær orðnar hefðbundnar lækningar og viðurkenndar sem slíkar. Ef nálastunguaðferðirnar væru orðnar sannanlegar með tilraunum væru þær orðnar hefðbundnar lækningar og það má vel vera að þær verði það einn góðan veðurdag.