131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[23:52]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. umhverfisnefnd fyrir mjög góða vinnu í þessu máli sem lætur ekki mikið yfir sér en hefur hins vegar reynst þannig að í gegnum tíðina hafa verið skiptar skoðanir um rjúpnaveiðar. En ég tel að hér hafi tekist að sameinast um að setja þær reglur sem nauðsynlegar eru til að tryggja það að veiðarnar verði sjálfbærar í framtíðinni og ef talning á rjúpu leiðir ekkert óvænt í ljós í sumar og stofninum fjölgar ætti að vera hægt að leyfa veiðar í haust að því tilskildu að niðurstaða talningar verði fullnægjandi.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni þá umfjöllun í nefndaráliti umhverfisnefndar að kannað verði hvort ástæða sé til að friða ákveðin svæði. Þessi umfjöllun nefndarinnar kemur í kjölfarið á umfjöllun um breytingartillögu sem hv. þm. Halldór Blöndal lagði fram við 2. umr. Þær breytingartillögur voru allrar athygli verðar og Náttúrufræðistofnun telur að það geti verið nauðsynlegt að takmarka skotveiðar á helstu lindarsvæðum þar sem hópar anda halda til á vetrum til að draga úr truflun sem veiðarnar kunna að hafa á sjaldgæfar og friðaðar tegundir. Hafa ber t.d. í huga að erfitt getur verið að greina friðaðar tegundir úr stórum andahópum, sérstaklega þegar skotið er í rökkri. Á þetta benti hv. þm. Halldór Blöndal sérstaklega.

Samkvæmt 53. gr. laga um náttúruvernd getur umhverfisráðherra friðað slík svæði fyrir skotveiðum að fengnum tillögum eða áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Ég tel að gild rök mæli með því að veiðar á öndum á helstu lindarsvæðum verði takmarkaðar frekar en gert hefur verið og hef ég þegar óskað eftir tillögum frá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun þar að lútandi og beðið um að þeim verði komið til ráðuneytisins fyrir 1. júní nk.