131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:02]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var fróðleg ræða og leitt að við í umhverfisnefnd skyldum ekki sjá okkur fært að leggja inn í þessa umræðu fleiri fuglategundir og dýra. Það var mjög rætt í nefndinni að gagnlegt væri að fara yfir allt sviðið. Það sem ákveðið var í nefndinni var hins vegar að binda sig við rjúpuna með örlítilli undantekningu, að gefnu tilefni úr góðu frumvarpi sem hér var flutt á þinginu, en lengra komust menn ekki. Ég var t.d. áhugamaður um að breyta ákvæðum þessara laga um hrafninn, sem ég tel óþörf og grimmileg og ber hag hans fyrir brjósti eins og sumir endurnar og aðra fugla.

Það sem kom mér hins vegar á óvart í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndal var að hann áskildi sér rétt til að flytja frumvarp — hann þarf ekki að áskilja sér það því að hann hefur rétt til þess meðan hann er þingmaður á þinginu — ef hann væri ekki sammála tillögum og áliti Náttúrufræðistofnunar. Er það þá þannig að hv. þm. Halldór Blöndal geri fyrir fram fyrirvara við vísindalegar niðurstöður þeirrar stofnunar sem á að gefa Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytinu hinn vísindalega grunn til að standa á?