131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:30]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst átelja þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í málinu. Það var keyrt inn á þing löngu eftir að frestur var útrunninn til að leggja fram mál, sem átti að vera fyrir 1. apríl, og síðan var það afgreitt með afbrigðum til að koma því á dagskrá sem sýnir hve mikill flumbrugangurinn er í málinu.

Landbúnaðarnefnd hafnaði því að senda málið út til hefðbundinna skriflegra umsagna, annaðhvort ekki þorað eða eitthvað var það, því var alla vega hafnað. Ég vil því átelja vinnubrögðin harðlega. Hér er um stórmál að ræða sem ekki er hægt að líða svona kæruleysislega meðferð á.

Ég ætla að spyrja: Hvers vegna voru ekki kannaðar fleiri leiðir við að finna Lánasjóði landbúnaðarins rekstrargrundvöll og starfsgrundvöll áfram? Það hefur bara verið lögð til sú eina leið að leggja hann niður og selja eignir hans. Hvers vegna voru ekki kannaðar aðrar leiðir eins og við höfðum bent að ætti að gera, eins og t.d. að samreka og afmarka verkefni hans með Lífeyrissjóði bænda, Byggðastofnun eða öðrum? Hvers vegna var það ekki kannað?

Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, sem hv. þingmaður gerði sér ekki grein fyrir, að ákveðinn hópur bænda mun standa utan við möguleika á því að fá eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu og lagt til að skoða hvort (Forseti hringir.) Byggðastofnun geti tekið þau verkefni.