131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:39]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það sem fram hefur komið hjá hv. framsögumanni og reyndar í nefndaráliti að mikil þörf var á því að taka með einhverjum hætti á málefnum Lánasjóðs landbúnaðarins. Ákveðið var að fara þá leið sem valin var eftir að sérfræðinganefnd fjallaði um málið og hv. landbúnaðarnefnd. Samt sem áður eru nokkrar spurningar sem ég vil varpa fram.

Þótt skriflegar umsagnir séu ekki margar eru þær þó tvær. Í annarri, frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda, kemur fram áhersla á að við breytingu á lánastofnun komi ekki til ný uppgreiðslu-, stimpil- eða lántökugjöld. Það hefur komið fram hjá fleirum sem heimsóttu nefndina að nauðsynlegt sé að líta þannig til með málinu að það verði ekki greidd stimpilgjöld af nýjum lánum við yfirfærslu til annarrar lánastofnunar.

Mér sýnist að lög heimili það ekki. Ef stofnað er til nýrra lána eða yfirfærsla yfir í aðra lánastofnun verði að greiða stimpilgjöld af nýju láni sem og önnur lögbundin gjöld. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig hefur nefndin hugsað þetta sérstaklega?

Töluverður hópur hefur þurft að greiða í Lánasjóð landbúnaðarins sem ekki er í Lífeyrissjóði bænda. Nokkrir garðyrkjubændur og bændur almennt hafa þurft að greiða gjöldin í sjóðinn en hafa hins vegar kosið að vera fyrir utan Lífeyrissjóð bænda. Hvernig verður farið með málefni þeirra? Er það þannig að gjöldin sem þeir hafa greitt verði bara tekin til að styrkja lífeyrissjóðinn til að greiða öðrum?