132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:33]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur undrun mína hvernig sá ágæti virðulegi þingmaður Einar Már Sigurðarson nennir að koma hér upp, fjasa og masa um það sem hann veit að er hreinn tilbúningur hans sjálfs. Ég sagði áðan í ræðu minni, virðulegi forseti, að ef þjóðfélag stendur frammi fyrir því að lífskjör þegnanna þurfi að skerða í smátíma sé sjálfsagt að fórna ríkissjóði fyrir það. Þá minnkar einkaneyslan strax og tekjur ríkisins minnka og það er sjálfsagður hlutur. Það er fagnaðarefni að umframeyðslan í þjóðfélaginu hverfi og hinar óraunhæfu tekjur ríkissjóðs hverfi. Ég hélt að hvert mannsbarn skildi þetta og auðvitað skildi nafni minn og hv. þingmaður þetta. Honum fannst bara sjálfsagt og gaman að masa um þetta, hann sneri þessu öllu á hvolf og masaði og fjasaði um að þar með hefði ég lýst því yfir að ríkisfjármál skipti engu máli o.s.frv. o.s.frv. út og suður, eintómt hugarfóstur og bull. En ef hann hefur gaman af þessu þá er það náttúrlega eins og sagt er — nei, ég ætla ekki að segja það.

Jæja, virðulegi forseti. En ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að 6. gr. heimildin sem er þarna inni varðandi undirbúning að tónlistarhúsinu er bara eðlileg og veitir heimild til þess að undirbúa þessa gjörð. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir í mínum huga, og ég skal taka það fram hér, að fjármögnun þessa húss og þátttaka ríkisins í þeirri fjármögnun, hvort sem það er 45% eða 55%, ég man það ekki, hversu margir milljarðar sem það eru, það getur aldrei haft gildi nema flutt sé um það lagafrumvarp, sérstök lög um þetta tónlistarhús. Skuldbinding ríkisins hefur ekkert gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt hana.