132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:44]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel mjög æskilegt að fjölga æfingasvæðum fyrir torfæruhjól og hef raunar unnið að því að þeim verði fjölgað, bæði í samvinnu við sveitarfélög og áhugamenn um akstur torfæruhjóla og vélhjóla. Akstur vélknúinna torfærutækja er og hefur verið vaxandi vandamál og víða um land hefur verið kvartað yfir landspjöllum af þeirra völdum. Öll umferð þessara tækja sem og annarra vélknúinna ökutækja er óheimil nema á vegum og á sérstaklega afmörkuðum svæðum sem hafa til þess leyfi.

Umferð vélknúinna ökutækja í náttúru landsins er bönnuð samkvæmt lögum um náttúruvernd. Það er jafnframt óheimilt að vera á þessum tækjum á göngustígum, reiðstígum, fjárgötum, fornum leiðum eða öðrum stígum sem myndast hafa. Notkun þessara tækja er þar að auki aðeins heimil á vegum að tækin séu skráð. Auk þess er akstur þeirra heimill á til þess gerðum æfingasvæðum, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi réttilega áðan. Þau svæði eru því miður allt of fá enn sem komið er og þess vegna hef ég lagt áherslu á að þeim verði fjölgað.

Ráðuneytið hefur látið þessi mál til sín taka með ýmsum hætti. Fyrst er að nefna endurskoðun á reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, nr. 528/2005, sem er ætlað að koma í veg fyrir náttúruspjöll af akstri utan vega og skýra og draga úr óvissu sem um þessi mál ríkti. Í maí sl. átti ég síðan fund með forsvarsmönnum Vélhjólaíþróttaklúbbsins og fleirum þar sem við ræddum um akstur utan vega, tillögur til úrbóta og æfingasvæði fyrir torfæruhjól. Í júní sl. átti ég fund með bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið var yfir stöðu þessara mála.

Nokkur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins eru að skoða í samvinnu við félög vélhjólamanna möguleika á því að taka frá ákveðin svæði fyrir torfæruvélhjól og nauðsyn þess að taka hart á akstri þeirra utan samþykktra svæða. Nauðsynlegt er að svæði þessi séu afmörkuð í skipulagi viðkomandi sveitarfélaga. Ég tel að slík lausn sé eina raunhæfa lausnin á þeim vanda sem nú blasir við.

Auk þessa sendi ég Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum bréf með beiðni um að hugað yrði að þessu máli og að þau hefðu frumkvæði að samvinnu sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins um að vinna að því að vélhjólamenn hafi möguleika til að sinna þessu áhugamáli með því að velja heppileg en þó skýrt afmörkuð svæði. Jafnframt var þeim boðin sú aðstoð sem ráðuneytið getur veitt við þetta verkefni.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að þegar hefur náðst nokkur árangur í því að bæta aðstöðu vélhjóla- og torfæruhjólamanna en í sumar undirrituðu þeir samkomulag við sveitarfélagið Ölfus um afnot af Jósepsdal til aksturs torfæruhjóla og þar er þegar hafin uppbygging sem vélhjólamennirnir standa sjálfir fyrir. Með þessu batnaði aðstaða þeirra mjög til að iðka íþrótt sína um leið og líkur á utanvegaakstri verða minni og þar með álagið á náttúruna. Þetta samkomulag er til fyrirmyndar og framlag sveitarfélagsins Ölfuss er sérstaklega rausnarlegt og virðingarvert.

Ég mun áfram beita mér í þessu máli og vænti þess að sveitarfélögin, ekki síst á þéttbýlissvæðum eins og á höfuðborgarsvæðinu, vinni saman að frekari lausn þess og að það taki sem stystan tíma vegna þess að hér er um að ræða mál sem þarfnast skjótrar úrlausnar. Það er líka alveg ljóst að ótrúlegur fjöldi fólks, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi, tekur þátt í þessum íþróttagreinum og brýnt að komið sé til móts við þarfir þess.