132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég var að sjálfsögðu fyrst og fremst að spyrja um bakgrunn þessara breytinga. Út af fyrir sig er hægt að átta sig á því í skýringum eða fletta upp á því í lögunum hvaða hlutföllum er þarna verið að breyta. En það hlýtur að vera það sem máli skiptir í sambandi við rökstuðning fyrir þeim hver sé hinn efnislegi bakgrunnur þeirra úti á markaðnum eða gagnvart þeim aðstæðum sem hafa breyst. Ef svarið er t.d. einfaldlega það að verið sé að bregðast við þróuninni í átt til hærra lánshlutfalls eða hærra veðsetningarhlutfalls á fasteignamarkaði þá er auðvitað spurning hvort það sé endilega þróun sem menn vilja elta og hversu langt. Nú er þetta að einhverju leyti að ganga til baka og bankar hafa t.d. verið að lækka lánshlutfall sitt á nýjan leik þannig að það er í sjálfu sér ekki endilega sjálfgefið að lífeyrissjóðirnir eigi að hreyfa sig mikið þarna. En ef menn telja að það hafi háð þeim að geta ekki fylgt með í þróuninni þá eru það að svo sem rök út af fyrir sig. Ég hef jafnvel enn frekar efasemdir um hitt, að það sé endilega gæfulegt að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fara enn meira út í ávöxtun í hlutabréfum en þegar hefur verið heimilt. Það er ákaflega sveiflukenndur bransi. Og þó svo að rétt kunni að vera að fjárfestingarmöguleikarnir, væntanlega þá sérstaklega innan lands, séu takmarkaðir í öðrum pappírum — það liggur t.d. fyrir að útgáfa ríkispappíra er orðin mun minni hér en einu sinni var og svigrúmið minna í slíkum hlutum — þá breytir það auðvitað ekki hinu að meginhugsunin hefur alltaf verið áhættudreifingin sem í því er fólgin að leggja aldrei nema vissan hluta í innlend hlutabréf og aðra pappíra á móti því sem sjóðunum er heimilt að fjárfesta erlendis og mér sýnist samkvæmt þessu að sé óbreytt.