132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:53]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er endilega sjálfgefið að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þeirri samkeppni sem er um að lána sem hæst hlutfall af markaðsverði fasteigna. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er kannski rétt að fara varlega í því og ég held reyndar að verið sé að gera það í þessu tilfelli. Ég held reyndar að bankarnir séu allir fyrir ofan þau 75% sem hér er verið að leggja til. Hér er um heimild að ræða en ekki skyldu. Sama á við um fjárfestingarhlutföllin hvað varðar hlutabréf og auðvitað hafa hlutföllin á mörkuðunum eitthvað um þetta að segja líka. Þar er líka um að ræða heimild sem sjóðirnir hafa en ekki skyldu til að fara upp fyrir þessi hlutföll en þeir þurfa auðvitað að meta hvað er hagstæðast fyrir þá.

Ég náði ekki að svara hv. þingmanni hvað varðar spurningar um Ábyrgðasjóð launa. Ég er ekki með það á takteinum að svo stöddu hvort líta þurfi á fleiri þætti aðra en Ábyrgðasjóð launa en auðvitað þarf að gera það og eins og kom fram hjá hv. þingmanni á það ekki að vera neitt stórvandamál að gera það til samræmis við þetta frumvarp þegar og ef það verður að lögum. En ef upp koma einhverjir þættir sem okkur hefur sést yfir þá á ég ekki von á að neinar tafir verði á því að flytja um það frumvörp og ég vona að þau fái jafnjákvæðar móttökur og þetta frumvarp hefur fengið hjá hv. þingmanni.