132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[16:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Mig langar aðeins til að leggja orð í belg um nokkur atriði þessa frumvarps sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir í dag.

Í fyrsta lagi um 1. gr. frumvarpsins varðandi það að hér skuli skilgreint nýtt hlutverk fyrir embætti ríkislögreglustjóra, samkvæmt þeim lögum um lögreglu sem eru í gildi núna, að starfrækja eigi lögreglurannsóknardeild og greiningardeild til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess sem leggja eigi mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Ég vil í upphafi máls míns að lýsa því yfir að mér líst í sjálfu sér ekkert illa á að þetta verði gert, en ég spyr: Hvers vegna er þessi mikla hógværð, hvers vegna er verið að kalla þetta lögreglurannsóknardeild eða greiningardeild? Mér finnst að frekar ætti að taka skrefið til fulls og kalla þetta hreinlega öryggislögreglu. Öll lönd í kringum okkur eru með slík batterí á sínu framfæri. Það væri miklu heiðarlegra og hreinskilnara að nefna hlutina réttum nöfnum í stað þess að vera með einhverja skrúðmælgi eins og greiningardeild. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að við séum með einhvers konar deild innan lögreglunnar sem rannsakar slíka hluti. Ég sé reyndar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins að talað er um að hún eigi líka að greina hættu sem tengist fíkniefnabrotum, talað er um fíkniefnabrot, skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk og annað sem varðar öryggi ríkisins. Við eigum að sjálfsögðu að hafa viðbúnað hvað varðar þessa hluti og eigum ekkert að skammast okkur fyrir það, alls ekki. Þetta vildi ég sagt hafa um þessa litlu grein.

Hitt sem mig langaði til að nefna eru atriði varðandi það að fækka á lögregluumdæmunum. Það virðist hafa mætt þó nokkurri tortryggni og skapað töluvert miklar umræður. Ég hef verið að kynna mér gögn málsins, lesa greinar og skýrslur og annað sem viðkemur málinu og ég verð að segja að það þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart að þetta veki miklar umræður. Lögreglan nýtur mikils álits hér á landi, ég held að hún sé að öllu jöfnu í mjög miklum metum meðal almennings. Íslenskir lögreglumenn skila afskaplega góðu starfi og sinna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Ég held að hlutverk þeirra sé ekki síst veigamikið einmitt í hinum dreifðu byggðum landsins. Það veitir fólki ákveðna öryggistilfinningu að vita að lögreglustöð er á staðnum og þar séu menn viðbúnir á vakt til að bregðast við ef vandi eða hætta steðjar að. Það er á margan hátt mjög skiljanlegt að fólki bregði við þegar það heyrir af því, eins og málið lítur út, að leggja eigi niður lögregluembætti á tilteknum stöðum og það hafi ýmislegt við það athuga.

Lögregluumdæmin í landinu eiga samkvæmt þessu að verða 15 talsins. Þau eru:

Akranes,

Borgarnes, en Búðardalur á að fara undir Borgarnes,

Stykkishólmur,

Ísafjörður, en Hólmavík, Bolungarvík og Patreksfjörður eiga að fara undir Ísafjörð,

Blönduós,

Sauðárkrókur,

Akureyri, en Siglufjörður og Ólafsfjörður eiga að fara undir Akureyri,

Húsavík,

Seyðisfjörður,

Eskifjörður, en Höfn á að fara undir Eskifjörð,

Hvolsvöllur, en Vík á að fara undir Hvolsvöll,

Vestmannaeyjar,

Selfoss,

Suðurnes, en Keflavík og Keflavíkurflugvöllur eiga að heyra undir lögregluumdæmi Suðurnesja.

Síðan á að sameina embættin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Ísland er stórt land og samgöngur víða úti á landi geta oft og tíðum verið erfiðar, sérstaklega þegar færð er slæm. Við sjáum að færa á undir einn hatt lögregluumdæmi sem eru á erfiðum stöðum, til að mynda á Vestfjörðum. Höfn á t.d. að fara undir Eskifjörð og loks á Vík að fara undir Hvolsvöll. Það getur verið torfært á milli þessara staða. En ég reikna með því og er í raun og veru viss um að þeir sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls hafi gert sér fulla grein fyrir þessu. Ég sé að ferill málsins hefur að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. Það er rakið í athugasemdum við frumvarpið að haft hafi verið samráð við fólk úti á landi og það hefur líka verið hlustað á athugasemdir þess. Mér sýnist vera tekið tillit til margra þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við tillögur nefndarinnar eða þeirra nefnda sem hafa unnið að þessu máli.

Ég vildi koma þessum athugasemdum mínum að þannig að það sé bókað að ég hef varann á mér hvað þetta varðar. Ég er hálfefins um að þessar breytingar eigi kannski í öllum tilvikum fyllilega rétt á sér en er að sjálfsögðu reiðubúinn að taka rökum og hlusta á rök varðandi það að svona eigi þetta að vera til framtíðar.

Ég ítreka að lögreglan skiptir mjög miklu máli. Og ég held að það skipti líka miklu máli fyrir marga á þessum stöðum, fyrir sjálfsímynd þeirra og jafnvel sjálfstraust, að þar sé fyrir hendi góð og trúverðug löggæsla. Það skiptir mjög mikli máli fyrir borgarana því að meginhlutverk lögreglunnar í landinu er að tryggja öryggi þeirra.

Annað sem mig langaði að koma að, virðulegi forseti, í þessu ræðukorni mínu er það sem kemur fram í í athugasemdum með frumvarpinu þar sem vikið er að því að efla eigi sýslumannsembættin víða um land og þá flytja verkefni af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Ég kom að því áðan í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra þar sem ég spurði hann hver tímaramminn væri á þessu. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að til að framkvæma þessa hluti þarf að breyta lögum og fara út í alls konar undirbúning í kringum þetta. En ég sakna þess þó að ekki skuli vera kveðið neins staðar á um hver tímaramminn á þessu öllu eigi að vera.

Það eru mjög margir úti á landi sem telja að ávöxtunum sé mjög misskipt hvað það varðar að dreifa ríkisstofnunum og embættum um landið og að allt of mikið af opinberum embættum og störfum á vegum ríkisins hafi safnast á höfuðborgarsvæðið. Ég get tekið undir þau sjónarmið. Ég hygg að víða úti á landi séu kannski ákveðnar væntingar um að eitthvað af þeim verkefnum sem hér er talað um, sem eru miðstöð ættleiðinga, sjóðir og skipulagsskrár, miðstöð fasteignasölueftirlits, útgáfa Lögbirtingablaðs, málefni bótanefndar, málefni skjalaþýðenda, miðstöð eftirlits með útfararþjónustu og miðstöð happdrættiseftirlits, og þau störf sem fylgja þeim komi til með að falla í skaut ákveðinna byggðarlaga þó að ég viti svo sem ekkert nánar um það.

Ég heyrði áðan að hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að útgáfa Lögbirtingablaðsins ætti að færast til Víkur. Það er að sjálfsögðu jákvætt en ég hefði gjarnan viljað fá að heyra svolítið meira um hvaða fyrirætlanir eru uppi um öll hin verkefnin og líka hvenær þetta eigi að koma til framkvæmda þannig að við vitum, þegar frumvarpið fer nú til meðhöndlunar í nefnd, hvað það er sem í raun og veru vakir fyrir stjórnvöldum.

Ég er mikill stuðningsmaður þess að fara grannt út í það að endurskoða með hvaða hætti við getum fært ríkisstofnanir og verkefni á vegum ríkisins út á land. Mér finnst stjórnvöld hvergi hafa staðið sig nægilega vel í þeim efnum og að það sé fyllilega kominn tími til að við skoðum þetta og framkvæmum meira í þessa veru, miklu meira en við höfum gert fram til þessa. Ég hef aðeins verið að kynna mér til að mynda reynslu Norðmanna af þessum málum, las síðast í morgun þá skýrslu sem ég held hér á, sem fjallar einmitt um reynslu Norðmanna af því að flytja opinber störf út á land. Ég verð að segja að það sem kemur fram í þessari skýrslu er á margan hátt mjög hvetjandi. Reynsla þeirra er að mörgu leyti mjög athyglisverð og hún hefur á margan hátt verið góð. Þetta er ekki einfalt mál en það skilar mjög miklu þar sem þetta hefur verið gert og virðist, nánast undantekningalaust, hafa tekist mjög vel hjá þeim þegar upp er staðið. Norðmenn hafa stundað þetta síðastliðin 40 ár, verið með þá pólitík að reyna eftir fremsta megni að færa störf á vegum hins opinbera út á land. Það hefur styrkt byggðir og á margan hátt haft mjög jákvæða hluti í för með sér.

Ég er sannfærður um að verkefnin sem hér er talað um mundu svo sannarlega verða til þess að styrkja þá staði sem fengju þau í sínar hendur, því að ég sé að margt af því sem hér er nefnt hlýtur að kalla á að fólkið sem tekur að sér þau störf sé fólk með tiltölulega mikla menntun og þetta séu stöðug störf, ef svo má segja, og tryggi þar með stöðugleika og hafi í för með sér marga jákvæða þætti fyrir landsbyggðina.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum aðeins koma nánar inn á það sem ég spurði hæstv. ráðherra um í andsvari þegar hann flutti flutningsræðu sína fyrir frumvarpinu, en það er um málefni Vestmannaeyja. Mér finnst alls ekki koma nægilega tryggilega fram í þeim pappírum sem ég hef séð að áfram verði rannsóknarlögreglumaður í Vestmannaeyjum eins og talað hefur verið um. Einungis er sagt í viðbótarskýrslu framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála, þar sem kemur réttilega fram að menn hafi hlustað á athugasemdir varðandi Vestmannaeyjar, og það er að mínu mati ekki nægilega vel tryggt í þeim skrifuðu orðum að rannsóknarlögreglumaður verði áfram í Eyjum, einungis er sagt að fjárveitingar til embættisins í Vestmannaeyjum verði tryggðar áfram en ekkert er nánar sagt til um með hvaða hætti þeim fjármunum verði síðan varið. Það væri gott ef það kæmi fram með skýrari hætti í meðförum þessa máls fyrir nefnd að þetta verði tryggt, því að ég tel mjög mikilvægt að rannsóknarlögreglumaður sé til staðar í Vestmannaeyjum. Reynslan sýnir að full þörf er á því. Vestmannaeyingar búa við mikla landfræðilega sérstöðu sem stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að taka fullt tillit til í verkum sínum.