132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var með sérkennilegustu ræðum sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Hæstv. dómsmálaráðherra hélt tölu um að þetta væri bara alls ekki lífsskoðun hans, öll þessi mál sem hann leggur hér fram á þingi. Það er með ólíkindum þegar við lítum á afrekalista hans, þann afrekalista sem hann hefur náð hér í gegn á þessu kjörtímabili, að hann tengist ekkert lífsskoðun hans eða áherslu. Hæstv. dómsmálaráðherra er sá maður sem leggur fram þessi frumvörp. Þetta eru ekki þingmannafrumvörp. Hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að leggja fram frumvarp sem lýtur að því að heimila hleranir án dómsúrskurða. Hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að leggja fram frumvarp sem skerðir gjafsókn og hann breytir útlendingalögunum. Frumkvæðið og frumvörpin koma frá hæstv. dómsmálaráðherra, þau koma ekki héðan frá þinginu. Það er með ólíkindum að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ákveða að hlaupa frá sínum eigin málum og vísa hér í: Ja, Alþingi samþykkti þetta.

Þessi mál koma frá hæstv. dómsmálaráðherra og hann þarf bara að taka ábyrgð á sínum eigin málum. Það er með ólíkindum að hann skuli vera svona viðkvæmur gagnvart sinni eigin lífsskoðun. En sem betur fer deili ég ekki lífsskoðun hans, og það hefur komið hér skýrt fram í dag.

Svo talar hæstv. dómsmálaráðherra um óvirðingu gagnvart Alþingi. Hver sýndi Alþingi óvirðingu með því að taka sérstaklega fram að hann mundi ekki svara spurningum þessa þingmanns því að honum líkaði ekki málflutningur hans? Það var hæstv. dómsmálaráðherra. Það er óvirðing við Alþingi. Sá sem hér stendur er hluti af Alþingi og hæstv. dómsmálaráðherra hefur skyldu til að svara okkur hér í þingheimi. Hann er að biðja okkur um að samþykkja frumvarp sitt sem ég hafði efasemdir um og vil fá svör við spurningum varðandi það, og svo talar hann um óvirðingu við Alþingi. Það er með ólíkindum.

Svo kvartar hann yfir því að ég hafi ekki náð fram neinum umbótamálum hér á þingi. Ég veit ekki betur en að ég hafi ítrekað lagt fram mjög góð mál á þingi en þau sofna eins og öll önnur þingmannamál hér í nefndunum og þannig er bara vinnulag þessa ríkisstjórnarmeirihluta. Hann hleypir ekkert öðrum málum í gegn en sínum eigin og þá bara frá hæstv. ráðherrum. Hann hleypir ekki einu sinni í gegn málum (Forseti hringir.) frá stjórnarþingmönnum. (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að hv. stjórnarþingmenn sætti sig við það.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann að virða ræðutíma.)