132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta hafa verið mjög merkilegar umræður hér síðustu mínúturnar. Hæstv. dómsmálaráðherra virðist hafa misst algjörlega stjórn á sér. Það þarf ekki nema eina ræðu stjórnarandstæðings til þess að hæstv. ráðherra missi gjörsamlega taumhald á sér, neiti að svara spurningum sem lagðar eru fram og hreyti alls konar skætingi í viðkomandi þingmann. Það er ekki hæstv. ráðherra til sóma.

Satt að segja áttar maður sig ekki alveg á þessu. Annar ráðherra missti stjórn á sér fyrir helgina. Hvað gengur eiginlega á á stjórnarheimilinu? Líður mönnum ekki nógu vel þar, eða hvað? Það er a.m.k. mjög sérkennilegt að hæstv. ráðherrar skuli ekki hafa meiri ró yfir sér hér í ræðustól en raun ber vitni síðustu dagana.

Ég ætla svo sem ekki að fara að elta ólar við það sem hæstv. ráðherra var að segja en það gengur auðvitað ekki annað en að ráðherra svari þeim spurningum sem eru lagðar fram og svari þingmönnum af fullri virðingu. Það síðasta sem hæstv. ráðherra var að tala um fékk mig til að biðja að lokum um orðið. Í lokaorðum sínum fór hann að ræða um það vandamál að einhverjir alþjóðadómstólar væru farnir að taka fram fyrir hendurnar á þjóðþingum. Auðvitað skín í gegnum þetta ergelsi hæstv. ráðherra vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur ekki umgengist málefni eins og mannréttindi af fullri virðingu. Hún hefur fengið flengingar úti í heimi. Auðvitað er sárt að fá slíkt. Auðvitað finnst hæstv. ráðherra að dómstólarnir hafi farið offari þegar þeir hafa vogað sér að komast að annarri niðurstöðu en ríkisstjórnin í landinu. Hæstiréttur hefur gert það á Íslandi, komist að annarri niðurstöðu en ríkisstjórnin. Hæstv. ráðherra man vel eftir því og finnst það sárt. Þess vegna kvartar hann yfir því að dómstólar séu að taka af sér völd.

Það er nú einu sinni þannig að í þessu landi, eins og flestum öðrum löndum á heimskringlunni, hafa menn framselt vald sitt með tilteknum hætti til alþjóðadómstóla. Það kostar sitt. Þá þurfa menn að horfast í augu við það að mönnum sé sagt til, og það hefur verið gert. Það er hins vegar nýtt hér að Hæstiréttur taki fram fyrir hendur á ríkisstjórnum og Alþingi, eins og gerst hefur á undanförnum árum. Það er vegna þess að Alþingi samþykkti lög sem gáfu Hæstarétti ástæðu til þess. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hafði ekki gert sér fullkomlega grein fyrir þessu. Það kemur honum á óvart og hæstv. ríkisstjórn, og hann er sár yfir þessu. Þess vegna talaði hann svona í lokin á ræðu sinni.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma ró á huga sinn, láta sig hafa það að svara þeim spurningum sem hv. þingmenn bera fram, jafnvel þótt honum finnist þær ekkert endilega skemmtilegar, og sýni þeim a.m.k. fulla virðingu.