132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst rétt í upphafi máls míns að taka fram að ég styð þetta frumvarp þó að ég leggi til þær breytingar sem við höfum rætt í andsvörum og tekist nokkuð á um. Þetta mál er allt hið jákvæðasta í sjálfu sér og ég vil þakka hv. formanni allsherjarnefndar og nefndinni ágæt störf. Mér finnst samt sem áður mjög sárt að þurfa að skilja við málið á þann veg að dómarar þessa lands hafi ekki þann möguleika að geta dæmt báðum foreldrum forsjá ef þau eru bæði jafnhæf til að sjá um uppeldi barna sinna. Það er ekki gott að dómarar séu í þeirri stöðu að þurfa að gera upp á milli jafnhæfra einstaklinga og það er eitt af því sem ég tel að verði að breyta. Mér finnst í rauninni sæta ákveðinni furðu að menn skuli ekki hafa haft þor til að gera það í þessari atrennu.

Annað sem þarf að fara yfir í þeirri vinnu sem þarf að leggja í þennan málaflokk er inntak sameiginlegrar forsjár. Hvert er inntak þeirrar forsjár sem er sameiginleg? Það er gríðarlegur munur á stöðu foreldris sem á lögheimili á sama stað og barn sem það hefur forsjá með og foreldris sem hefur sameiginlega forsjá en er ekki með lögheimili á sama stað og barnið. Það er gríðarlegur munur og það þarf að fara yfir þetta. Þetta tengist m.a. bótum og ýmsum skattaívilnunum sem ríkið úthlutar. Ef til vill er sameiginleg forsjá með þeim hætti að börn dvelja 30% til 40% á heimili annars og 60% til 70% á heimili hins en samt sem áður lenda allar sporslur ríkisins hjá því foreldri sem barnið á lögheimili hjá. Þetta er einn af þeim þáttum sem þarf að fara yfir í þessum málaflokki.

Ekki er hægt að skilja við þetta mál án þess að ræða það að þessi umræða er auðvitað angi af jafnréttisbaráttunni sem hefur farið fram á síðustu áratugum. Sú barátta hefur fært konum ákveðin réttindi, sem er mjög jákvætt, og einnig fært körlum ákveðnar skyldur hvað varðar heimilishald og uppeldi barna sinna í meiri mæli en áður var. Þess vegna er líka komið að því að karlar krefjist aukinna réttinda. Þetta er einfaldlega angi af því máli. Það er nú svo að þegar komið er að því að dæma forsjá þá lendir hún oftar en ekki hjá því foreldri sem barnið hefur heimilisfesti hjá og það er oftar en ekki hjá móðurinni. Þess vegna finnst mörgum körlum mjög sárt að ef málin lenda í deilum sé því sem næst öruggt að þeir verði dæmdir til forsjárleysis yfir börnum sínum. Það er það sem þetta mál snýst meðal annars um.

Ég ætla að ljúka þessari ræðu á jákvæðu nótunum og segja að þetta mál er í heild sinni jákvætt og ég er sannfærður um að þessi málaflokkur mun verða til umræðu á komandi þingum þar sem þessu verður breytt með þeim hætti að dómurum verði gefinn kostur á því að dæma sameiginlega forsjá. Þetta er þróun sem á sér stað í öðrum löndum og er einfaldlega hluti af þróun í átt til jafnréttis sem ég tel mjög jákvæða í þjóðfélaginu.