132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[01:17]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umsögn slysavarnafélaganna virðist mér þessu mótmælt. Þar er talað um mikinn kostnað sem því fylgir fyrir björgunarsveitirnar að setja ökumæla í hvert ökutæki. Einnig fylgir því kostnaður og vinna fyrir sveitirnar og opinbera aðila að láta lesa af þessum mælum. Það er sem sagt lagt til að taka upp kerfi sem m.a. hv. þingmaður tók þátt í að leggja af fyrir nokkrum missirum síðan, þ.e. þungaskattskerfið. En þarna er því komið á upp á nýtt.

Ég get sagt það, virðulegur forseti, að ég er sammála því og hyggst í ræðu minni á eftir boða breytingartillögu sem þarf til að björgunarsveitirnar fái þetta frítt, þ.e. fari á lituðu olíuna og greiði ekki kílómetragjald, þann þungaskatt sem þarna er lagður til.