132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[01:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna er til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald sem m.a. hefur að markmiði, eins og stendur í 4. gr. frumvarpsins, að framlengja ákvæði til bráðabirgða í lögunum, um að fjárhæð olíugjalds skuli 41 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006. 4. gr. er svohljóðandi:

„Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 126/2005, orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga þessara skal fjárhæð olíugjalds vera 41 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006.“

Þessu gjaldi mun því viðhaldið til að jafna verð á milli olíu og bensíns. Af því tilefni flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs breytingartillögu við frumvarpið til að árétta að með gjaldheimtu sem þessari er hægt að stýra orkunotkun inn á vistvænni brautir og einnig til orkusparnaðar, ekki síst þegar um er að ræða orku sem ekki er sjálfbær. Hún er ekki ótakmörkuð eins og við vitum, olía og bensín eru ekki ótakmörkuð auðlind og þess vegna ber okkur að haga málum svo. Þess vegna flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmenn Atli Gíslason, Ögmundur Jónasson, Þuríður Backman, Jón Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon, breytingartillögu sem lögð var fram fyrr á þinginu. Hún hljóðar svo:

„Við bætist ný grein sem verði 4. gr. og orðist svo:

2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:

Innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi samkvæmt lögum þessum renna til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara og 4,5% sem renna til að efla almenningssamgöngur og til að auka hlut vistvænna orkugjafa í samgöngum.“

Miðað við innheimtu þessa gjalds gætu þessi 4,5% reynst í kringum 200 millj. kr. sem rynnu til viðbótar til að efla almenningssamgöngur og auka hlut vistvænna orkugjafa í samgöngum. Við teljum að það eigi, að því marki sem mögulegt er, að beina skattheimtunni á þessum orkugjöfum, óendurnýjanlegum orkugjöfum, til að stýra notkuninni á vistvænni brautir og til orkusparandi aðgerða. Þess vegna er þessi tillaga flutt.